HM í Eugene: Andersen með þriðja gull heimamanna – koma þrjú til viðbótar í nótt?

Nú þegar morgunhluta þriðja keppnisdags heimsmeistaramótsins í Eugene er lokið eru heimamenn á toppi verðlaunatöflunnar en þeir hafa unnið til samtals sjö verðlauna, þar af þriggja gullverðlauna. Eþíópía kemur þar á eftir með þrenn verðlaun, þar af tvenn gullverðlaun. Sleggjukastarinn Brooke Andersen vann þriðju gullverðlaun Bandaríkjanna í dag en áður höfðu 100m hlauparinn Fred Kerley og kúluvarparinn Chase Ealy unnið gull.

Andersen átti lengsta kast ársins fyrir keppni dagsins, 79,02m, og hún tók forystu strax í fyrstu umferð þegar hún kastaði 74,81m. Hún var þó í basli í upphafi keppninnar og virtist ekki alveg vera að finna sig í hringnum. Hún sagði í viðtali við NRK að keppni lokinni að spennustigið hafi verið of hátt enda mikið undir á heimavelli. Hún róaðist þó aðeins eftir fyrstu þrjú köstin þegar ljóst var að hún væri komin í átta kvenna úrslit en á þeim tímapunkti var hún komin niður í þriðja sætið á eftir löndu sinni Janee’ Kassanavoid og Camryn Rogers frá Kanada. Andersen fann sig betur í hringnum þegar spennustigið lækkaði og náði löngu kasti í fjórðu umferð. Kastið var upphaflega dæmt ógilt en Andersen mótmælti dómnum og honum snúið við. Kastið mældist 77,42m og fyrsta sætið orðið hennar. Hún lengdi sig síðan í síðustu tveimur köstunum og lauk keppninnin með kasti upp á 78,96m, aðeins 6cm frá hennar besta. Camryn endaði í öðru með 75,52m og Kassnavoid þriðja með 74,86m.

Góðar líkur á þremur gullum til viðbótar

HM heldur áfram í nótt þegar m.a. verður keppt til úrslita í 100m hlaupi kvenna. Búist er við spennandi keppni eins og lesa má um hér. Einnig verður hlaupið til úrslita í 110m grindahlaupi karla þar sem mögueiki er á þreföldum sigri Bandaríkjamanna líkt og í 100m hlaupi karla í gær.

Bandaríkjamenn munu líklega bæta öðru gulli í sarpinn þegar heimamaðurinn og heimsmethafinn Ryan Crouser keppir til úrslita í kúluvarpi. Bandaríkjamenn eru síðan líklegir til að bæta við enn einu gullinu í stangarstökki kvenna en þar hefur heimakonan Sandi Morris stokkið hæst á árinu auk þess sem Ólympíumeistarinn Katie Nageotte er til alls líkleg. Útsending frá mótinu hefst á miðnætti á RÚV en Sigurbjörn Árni Arngrímsson mun lýsa keppni næturinnar af sinni alkunnu snilld.