HM í Eugene: Cherono og Ross sendir heim vegna lyfjamisferlis

Nefnd heilinda innan frjálsra íþrótta (e. Athletics Integrity Unit, AIU) (tillögur að betri þýðingu óskast) gaf það út í dag að tveir keppendur sem skráðir voru til keppni á heimsmeistaramótinu í Eugene hafi verið settir í bann til bráðabirgða vegna lyfjamisferlis og munu því ekki fá að keppa á mótinu. Þetta eru maraþonhlauparinn Lawrence Cherono frá Kenía og bandaríski spretthlauparinn Randolph Ross sem skráður var í 400m hlaup og 4x400m boðhlaup.

Cherono féll á lyfjaprófi sem tekið var utan keppni þann 23. maí sl. Lyfið trimetazidine fannst í sýni hlauparans en lyfið hefur áhrif á efnaskipti líkamans og getur haft áhrif á hvernig líkaminn vinnur fitu. Lyfið er einnig notað gegn brjóstverki vegna skorts á blóðflæði eða súrefnis til hjartans. Þess má geta að þetta er sama lyf og fannst í sýni 15 ára rússnesku skautadrottningarinnar Kamilu Valievu á Vetrarólympíuleikunum fyrr á árinu. Cherono, sem varð fjórði í maraþonhlaupinu á Ólympíuleikunum í fyrra og vann Boston og Chicago maraþonin árið 2019, var talinn einn af þeim sem gæti barist um verðlaun í Eugene. Hann á áttunda besta tíma sögunnar í maraþoni, 2:03:04.

Randolph Ross, sem varð bandarískur háskólameistari í 400m fyrr á árinu, var settur í bann fyrir að hafa misst af lyfjaprófi þann 18. júní sl. og fyrir að hafa reynt að koma í veg fyrir eða hafa áhrif á rannsókn lyfjaeftirlitsins á því. Ross, sem varð Ólympíumeistari í 4x400m boðhlaupi í Tókýó í fyrra, á fjórða besta tímann í 400m í ár.

Stuttu áður en HM byrjaði var tilkynnt um að 800m hlauparinn og silfurverðlaunahafinn frá Ólympíuleikunum í London, Nijel Amos frá Botswana, hafi verið settur í bann vegna falls á lyfjaprófi en lyfið GW1516 fannst í sýni sem tekið var af honum í júní.