HM í Eugene: Þrefaldur bandarískur sigur í 100m, Ealy og Wang með gull

Annar keppnisdagur Heimsmeistaramótsins í Eugene olli ekki vonbrigðum en alls voru fimm heimsmeistarar krýndir í gær. Pawel Fajdek varð heimsmeistari í sleggjukasti karla og Letesenbet Gidey varð heimsmeistari í 10.000m hlaupi kvenna eins og lesa má um hér.

Ealy og Wang heimsmeistarar

Bandaríkjakonan og Íslandsvinurinn Chase Ealy varð heimsmeistari í kúluvarpi kvenna. Ealy, sem vann Reykjavíkurleikana fyrr á árinu, kastaði 20,49m strax í fyrsta kasti og reyndist það vera sigurkastið. Þetta voru fyrstu gullverðlaun heimamanna á mótinu. Heimsmeistarinn frá Dóha 2019, Lijiao Gong, varð önnur með kasti upp á 20,39m og Hollendingurinn Jessia Schilder varð þriðja með kasti upp á 19,77m. Sarah Mitton frá Kanada kastaði jafnlagt og Schilder en átti styttra annað lengsta kast og varð því að láta sér fjórða sætið lynda.

Nokkuð óvænt úrslit urðu í langstökki karla. Ólympíumeistarinn Miltiadis Tentoglu leiddi keppnina frá 2. umferð með stökki upp á 8,30m. Í síðustu umferð stökk Kínverjinn Jianan Wang 8,36m og tók forystuna. Tentoglu náði ekki að svara í sínu síðasta stökki og varð Wang því heimsmeistari. Gull á heimsmeistararmóti utanhúss er það eina sem Tentoglu vantar í verðlaunaskápinn sinn og verður hann því að bíða um sinn með að fullkomna hann. Svisslendingurinn og tugþrautarkappinn Simon Ehammer, sem á lengsta stökk ársins, varð að gera sér bronsið að góðu en hann stökk 8,16m.

Bandaríkin unnu þrefalt í 100m

Mikil spenna var fyrir 100m hlaupi karla en það er yfirleitt einn af hápunktum heimsmeistaramótsins. Ólympíumeistarinn Lamont Marcell Jacobs dró sig úr keppni fyrir undanúrslitin en hann hefur verið að glíma við meiðsli aftan í læri í allt sumar sem gerðu það að verkum að hann gat ekki beitt sér á fullu. Fred Kerley var sigurstranglegastur fyrir hlaupið en hann var þó ekki sannfærandi í undanúrslitunum þegar hann hljóp á 10,02s (+0,1) sem var fimmti besti tíminn inn í úrslitin. Jamaíkumaðurinn Oblique Seville átti besta tímann í undanúrslitum, 9,90s (-0,1). Allir fjórir Bandaríkjamennirnir, Kerley, Christian Coleman, Treyvon Bromell og Marvin Bracy, komust í úrslit en þeirra hraðast hljóp Bracy á 9,93s (-0,1).

Christian Coleman, sem átti titil að verja, byrjaði úrslitahlaupið hvað best og var í forystu eftir 50 metra en byrjaði þá að stífna aðeins upp. Bracy var í forystu þegar um 10 metrar voru eftir af hlaupinu og virtist ætla að taka þetta. Kerley náði hins vegar kasta sér fram úr Bracy á lokametrunum og kom fyrstur í mark á tímanum 9,86s (-0,1). Bromell kláraði hlaupið einnig vel og endaði á sama tíma og æfingafélagi sinn Bracy, 9,88s. Bracy var þó tveimur þúsundustu hlutum úr sekúndu á undan Bromell í mark og fékk því silfrið en Bromell bronsið. Coleman endaði sjötti á 10,01s.

Möguleiki á þreföldum Jamaískum sigri í nótt

Ekkert óvænt gerðist í undanrásum 100m hlaups kvenna. Jamaísku drottningarnar Shelly-Ann Fraser-Pryce, Elaine Thompson-Herah og Shericka Jackson komust allar auðveldlega áfram í undanúrslit og það verður gaman að sjá hvort þær geta leikið þrennu Bandaríkjamanna eftir í nótt þegar undanúrslit og úrslit fara fram. Í dag verður einnig keppt til úrslita í 10,000m hlaupi karla, sleggjukasti kvenna, stangarstökki kvenna, kúluvarpi karla og 110m grindahlaupi karla. Auk þess hefst sjöþraut kvenna í dag þar sem búist skemmtilegri keppni en lesa má allt um það hér.