HM í Eugene: Upphitun fyrir 100m hlaup kvenna

Undanúrslit og úrslit 100m hlaups kvenna á HM í Eugene fara fram í nótt og verða í beinni útsendingu á RÚV. Búist er við spennandi keppni en tvær af þremur hröðustu konum sögunnar munu mæta til leiks. Bandaríkjamenn unnu þrefalt í 100m hlaupi karla í gær en möguleiki er á Jamaíkukonur svari fyrir sig og sópi til sín öllum verðlaununum kvennamegin eins og þær gerðu í Tókýó í fyrra.

Fraser-Pryce sigurstranglegust

Shelly-Ann Fraser-Pryce á þrjá bestu tíma ársins í greininni og hefur hlaupið hraðast á 10,67s. Hún hefur litið mjög vel út í sumar og verður að teljast sigurstranglegust. Fraser-Pryce getur unnið sitt fimmta HM-gull í 100m hlaupi, 13 árum eftir að hún vann sitt fyrsta. Hún leit afar vel út í undanrásunum í gær eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan.

Mun Thompson-Herah brjóta HM-bölvunina?

Ólympíumeistarinn Elaine Thompson-Herah á þriðja besta tíma ársins, 10,79s. Hún varð þriðja á Jamaíska meistaramótinu og leit ekki mjög sannfærandi út þar. Hún varð þó einnig þriðja á Jamaíska meistaramótinu í fyrra og varð síðan Ólympíumeistari. Hún hefur því nef fyrir því að toppa á réttum tíma – þó reyndar einungis á Ólympíuleikum. Hún á nefnilega ennþá eftir að vinna til verðlauna í 100m hlaupi á heimsmeistaramóti og vill örugglega breyta því í nótt.

Hvað gerir Jackson?

Shericka Jackson á annan besta tíma ársins, 10,77s. Jackson er að eiga sitt besta tímabil hingað til en hún varð Jamaíkumeistari í bæði 100m og 200m og er til alls líkleg í nótt. Jackson á þó meiri möguleika á gullinu í 200m hlaupinu en hún hljóp á þriðja besta tíma sögunnar í þeirri grein á Jamaíska meistaramótinu (sjá hér). Jackson á tvenn bronsverðlaun frá HM í 400m hlaupi og á góðan séns á að bæta í það safn í nótt.

Ná Asher-Smith, Kambundji og Hobbs að stríða Jamaíkukonum?

Heimsmeistarinn í 200m, Bretinn Dina-Asher Smith, átti besta tímann í undanrásunum í gær, 10,84s, sem er hennar besti tími á árinu. Hún leit vel út í gær og gæti strítt Jamaíkukonunum. Heimsmeistarinn í 60m innanhúss, Svisslendingurinn Mujinga Kambundji, hefur hraðast hlaupið á 10,89s í ár og gæti einnig blandað sér í baráttuna um verðlaun en hún nær yfirleitt að toppa á réttum tíma. Ekki má heldur útiloka heimakonuna Aleiu Hobbs sem hefur hlaupið á 10,81s í ár.

Fellur heimsmet Flo-Jo í nótt?

Fraser-Pryce og Thompson-Herah hafa verið að nálgast heimsmet Florence Griffith-Joyner sem er 10,49s og hefur staðið frá árinu 1988. Fraser-Pryce á best 10,60s og Thompson Herah á 10,54s – báðir tímar eru frá því í fyrra. Thompson-Herah hefur ekki verið mjög sannfærandi í sumar á meðan Fraser-Pryce virðist mögulega vera í besta formi lífs síns – 36 ára að aldri! Í upphafi tímabilsins sagðist Fraser-Pryce vera í formi upp á 10,4-10,5s og gæti heimsmetið því verið í hættu í nótt. Tímarnir í 100m hlaupi karla í gær voru ekki mjög hraðir en allt er þó opið fyrir kvennahlaupið í nótt.