HM í Eugene: Upphitun fyrir sjöþraut kvenna

Sjöþraut kvenna hefst í dag (sunnudaginn 17. júlí) á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum. Keppni í sjöþraut hefst með 100 metra grindahlaupi á fyrri degi, því næst er haldið í hástökk, kúluvarp og loks 200 metra hlaup til þess að klára daginn. Seinni dagurinn samanstendur af langstökki, spjótkasti og 800 metra hlaupi.

Íþróttakonurnar fá stig fyrir árangur í hverri grein og að loknum sjö greinum er talið upp úr pokanum og sú sem er með flest stig krýnd heimsmeistari.

Greinin er gríðarlega krefjandi bæði andlega og líkamlega og má lítið út af bregða til þess að hlutirnir fari úrskeiðis. Þær fá bara 3 tilraunir í kúluvarpi, langstökki og spjótkasti. Því er mikilvægt að ná árangri í öllum greinum til þess að fá stig fyrir allar þessar greinar.

Fegurðin við greinina er einnig sú að sú sem er að vinna eftir fyrri dag er ekkert endilega örugg með sigur því að mögulega er hún lakari í einhverri annari grein á seinni degi, ef við tökum dæmi þá er sú sem á bestan árangur í ár Hollendingurinn Anouk Vetter tæpa 60 metra í spjótkasti sem myndi vinna á margar aðra sem eru lakari í þeirri grein. Það getur allt gerst.

Kanónurnar mættar til leiks

Ef við skoðum síðasta heimsmeistaramót þá eru efstu tvær konur frá því móti mættar til leiks. Þær Katarina Johnson-Thompson (ekkert skyld Daley Thompson) frá Bretlandi og Nafi Thiam frá Belgíu.

Heimsmeistarinn KJT er þó að stíga upp úr erfiðum meiðslum en hún sleit hásin og er ennþá að koma sér í gang eftir það, hún er þó búinn að fara í gegn um eina þraut í ár og skoraði þar tæplega 6200 stig. KJT er frábær stökkvari en lakari í kúluvarpi og spjótkasti. Hún hefur verið að bæta sig í köstunum og ef hún er búin að ná fyrri styrk í fæturna er hún til alls líkleg.

Nafi Thiam, Ólympíumeistarinn frá Tokyo hefur ekki farið í gegn um þraut í ár. Hennar besti árangur er yfir 7000 stig og hún virðist alltaf stíga upp á stórmótum og er nokkuð líkleg til afreka á þessu móti. Thiam er frábær íþróttakona og á t.d. 2.02 metra í hástökki, 6.86 í langstökki og tæpa 60 metra í spjótkasti.

Hollendingurinn fljúgandi

Anouk Vetter átti frábæra þraut í Götzis núna í Maí og setti persónulegt met sem er besti árangurinn í heiminum í dag. Vetter er mjög reynd í faginu og er hún tilbúin í baráttu um verðlaun á þessu móti.

Hall og Sulek í bætingarformi

Anna Hall frá Bandaríkjunum og Adriana Sulek frá Póllandi hafa verið að keppa mikið og bæta sig mikið núna í ár. Þær eru í góðum takti og eru líka líklegar í baráttuna um verðlaun.

Á heimavelli

Kendell Williams er með mesta reynslu af stórmótum af fjórum keppendum frá Bandaríkjunum, Williams hefur ekki tekið sjöþraut í ár en hún á góðan árangur í þraut og varð í þriðja sæti á HM innanhúss í Belgrade.

Asthin Zamzow – Mahler og Michelle Atherley keppa einni fyrir Bandaríkin. Þær fjórar hafa hallar reynslu á því að keppa á stórum mótum á þessum velli og þekkja aðstæður vel þar.

Hver vinnur?

Spá undirritaðs er að Thiam vinni, Vetter verði í öðru sæti og Adriana Sulek taki bronsið óvænt eftir harða baráttu við Williams. En það er samt margt sem getur gerts og verður spennandi að fylgjast með þessari keppni.

Baráttan um verðlaun verður nokkuð opin og eru nokkrar sem gera tilkall til verðlauna. Fyrir þá sem vilja fylgjast með framþróun mála og spá ítarlegra í spilin þá er hægt að benda á þessa vefsíðu hér.