Íslendingar unnu til fernra verðlauna í Malmö – Erna Sóley vann gull

Norðurlandameistaramót U20 og Norðurlanda- og Eystrasaltsmeistaramót U23 voru haldin í Malmö í Svíþjóð um helgina. Alls voru þrettán Íslendingar skráðir til keppni og unnu þau alls til ferna verðlauna.

ÍR-ingurinn Erna Sóley Gunnarsdóttir vann til gullverðlauna í kúluvarpi kvenna U23 þegar hún kastaði 16,52m. Hún kastaði rúmum hálfum metra lengra en Finninn Emilia Kangas sem varð önnur með kasti upp á 15,94m.

ÍR-ingurinn Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir vann til bronsverðlauna í sleggjukasti kvenna U23 með kasti upp á 59,30m. Liðsfélagi hennar hjá ÍR, Íslandsmethafinn Elísabet Rut Rúnarsdóttir, varð fjórða með kasti upp á 59,08m. Svíinn Sara Forssell vann sleggjukastið með 62,96m löngu kasti.

Elías Óli Hilmarsson vann til silfurverðlauna í hástökki U20 þegar hann stökk 2,06m sem er 12cm bæting hjá honum. Svíinn Melvin Lycke Holm, sonur goðsagnarinnar Stefans Holm, vann gullið með stökki upp á 2,16m.

Daníel Ingi Egilsson vann silfurverðlaun í þrístökki karla U23 með stökki upp á 15,51m (+2,1). Þetta er lengsta stökk Íslendings í 60 ár eins og lesa má um hér. Daníel varð fjórði í langstökki með stökki upp á 7,11m (+4,3).

Sigursteinn Ásgeirsson varð í áttunda sæti í kúluvarpi karla með kasti upp á 15,12m. Ingibjörg Sigurðardóttir varð í níunda sæti í 400m grindahlaupi kvenna U23 á tímanum 65,87s. Tiana Ósk Witworth varð sjöunda í 100m hlaupi kvenna U23 á tímanum 11,74s (+3,2). Tiana varð síðan áttunda í 200m hlaupinu á tímanum 24,60s (+1,5). Íslandsmethafinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir byrjaði 200m hlaupið en gat því miður ekki klárað hlaupið vegna meiðsla sem hún er búin að glíma við í allt sumar. Hún sagði í viðtali við mbl.is eftir hlaupið að hún muni ekki keppa meira í tímabilinu og ætli að einbeita sér að því að ná sér góðri af meiðslunum.

Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson varð í fimmta sæti í 200m hlaupi karla U20 á tímanum 21,86s (0,0) sem er persónluegt met hjá Anthony. Þetta er í annað sinn sem Anthony, sem varð Íslandsmeistari í greininni í síðasta mánuði, hleypur vegalengdina undir 22 sekúndum. Guðjón Dunbar Diaquoi varð fimmti í þrístökki U20 þegar hann stökk 14.00m (+1,7) sem er persónulegt met hjá honum. Bjarni Hauksson varð áttundi í kringlukasti U20 með kasti upp á 40,20m. Arndís Diljá Óskarsdóttir varð í sjöunda sæti í spjótkasi kvenna U20 með kasti upp á 42,07m.

Hér má nálgast myndir frá íslensku keppendunum á mótinu.

Silfrið óskar íslenska hópnum til hamingjum með góðan árangur!

Uppfært 18.07.22 kl. 16:00

Við greindum frá því upphaflega að Anthony Vilhjálmur hafi hlaupið í fyrsta sinn undir 22 sekúndum á mótinu um helgina. Hið rétta er að þetta er í annað sinn sem hann gerir svo en hann hljóp á 21,93s á Bauhaus Junioren-Gala fyrr í mánuðinum.