HM í Eugene: De Grasse þriðji Ólympíumeistarinn sem dregur sig úr keppni

Þær fréttir voru að berast úr herbúðum kanadíska landsliðsins að Ólympíumeistarinn í 200m hlaupi, Andre De Grasse, hafi dregið sig úr keppni í 200m hlaupinu á HM í Eugene en undanrásir hlaupsins fara fram í nótt. De Grasse, sem mistókst að komast í úrslit 100m hlaupsins í fyrradag, greindist nýlega með Covid-19 og hefur ekki náð sér að fullu. Hann stefnir þó að því að hlaupa 4x100m boðhlaupið með kanadísku sveitinni síðar á mótinu.

Nú hafa því Ólympíumeistararnir í 100m, 200m og 400m hlaupum frá því í Tókýó allir dregið sig úr keppni á heimsmeistaramótinu. Lamont Marcell Jacobs, Ólympíumeistarinn í 100m hlaupi, dró sig úr keppni í undanúrslitum 100m hlaupsins vegna meiðsla aftan í læri sem hann hefur verið að glíma við í allt sumar. Fyrir mótið gaf Ólympíumeistarinn í 400m hlaupi, Steven Gardiner, það út að hann muni ekki keppa á mótinu vegna meiðsla í hásin.