Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

HM í Eugene: Gebreslase vann á nýju mótsmeti

Eþíópíukonan Gotytom Gebreslase varð heimsmeistari í maraþonhlaupi fyrr í dag. Hún kom í mark á nýju mótsmeti, 2:18:11, og lék þar með eftir afrek landa síns, Tamirat Tola, sem vann maraþon karla einnig á nýju mótsmeti. Þetta eru þriðju gullverðlaun Eþíópíumanna á mótinu en Letesenbet Gidey vann 10.000m hlaup kvenna á öðrum degi mótsins.

Ruth Chepngetich frá Kenía, sem átti titil að verja, leiddi hlaupið á nokkuð góðum hraða fram að 18 kílómeter en þá hætti hún keppni vegna, að því er virtist, magakrampa. Eftir um 28 kólómetra hlaup slitu Gebreslase og Keníukonan Judith Korir sig frá fremsta hópi og hlupu hlið við hlið þar til um tveir kílómetrar voru eftir. Þá náði Gebreslase, sem hljóp sitt fyrsta maraþon í Berlín í fyrra og vann, að slíta sig frá Korir og hélt forystunni allt til loka. Korir endaði önnur á tímanum 2:18:20 sem er hennar besti tími frá upphafi.

Ababel Yeshaneh frá Eþíópíu og Angela Tanui frá Kenía fylgdu þeim Gebreslase og Korir lengst af í hlaupinu en á 27. kílómeter byrjuðu þær að dragast aftur úr. Þær virtust ætla að bítast um bronsið eða allt þar til Yeshaneh hætti keppni eftir 34 kílómetra. Það dró heldur úr Tanui eftir það en hún þraukaði þó í mark og endaði sjötta.

Nazret Weldu frá Eritreu og Lonah Salpeter frá Ísrael unnu sig upp í þriðja og fjórða sætið á 35. kílómeter og börðust um bronsið allt til loka hlaupsins. Það fór svo að Salpeter kom á undan í mark á tímanum 2:20:18 og fékk bronsið en Weldu endaði fjórða á nýju landsmeti, 2:20:29. Heimakonan Sara Hall kom síðan fimmta í mark á tímanum 2:22:10.

Exit mobile version