HM í Eugene: Þrefalt hjá Jamaíkukonum í 100m og Bandaríkjamönnum í kúlu

Hápunktur gærdagsins á heimsmeistaramótinu í Eugene var 100m hlaup kvenna. Fyrirfram var búist við góðum árangri jamaísku spretthlaupsdrottninganna, Shelly-Ann Fraser-Pryce, Elaine Thompson-Herah og Shericku Jackson.

Lítið óvænt gerðist í undanúrslitnunum – allar þær jamaísku unnu sína riðla nokkuð auðveldlega. Bretinn Dina Asher-Smith, Svisslendingurinn Mujinga Kambundji, Fílabeinsstrendingurinn Marie-Josée Ta Lou og heimakonurnar Aleia Hobbs og Melissa Jefferson komust einnig í úrslit.

Fraser-Pryce átti besta startið í úrslitahlaupinu eins og svo oft áður. Hún hélt forystunni allt til loka og kom í mark á nýju mótsmeti, 10,67s (+0,8). Hún bætti þar með mótsmet Marion Jones frá árinu 1999 um þrjá hundraðshluta úr sekúndu. Fraser-Pryce var þarna að vinna sinn fimmta heimsmeistartitil í 100m og varð hún þar með fyrst til þess að vinna fimm heimsmeistaratitla í sömu einstaklingshlaupagreininni. Stangarstökkvarinn Sergei Bubka er sá eini sem hefur unnið sex heimsmeistartitla í einstaklingsgrein.

Jackson varð önnur í hlaupinu á persónulegu meti, 10,73s, og Thompson-Herah þriðja á 10,81s. Þetta eru fyrstu verðlaun Thompson-Herah í 100m á heimsmeistaramóti. Jamaíka sópaði þannig til sín öllum verðlaununum líkt og á Ólympíuleikunum í fyrra. Asher-Smith jafnaði landsmet sitt þegar hún kom fjórða í mark á 10,83s. Kambundji varð síðan fimmta á 10,91s sem er aðeins einum hundraðshluta frá landsmeti hennar.

Mikil dramatík í 110m grind

Í úrslitahlaup 110m grindahlaups karla voru þrír Bandaríkjamenn sigurstranglegastir, þeir Grant Holloway, Devon Allen og Trey Cunningham. Ólympíumeistarinn Hansle Parchment frá Jamaíku sem búist var við að myndi veita Bandaríkjamönnunum hvað harðasta keppni meiddist í upphitunarstarti fyrir úrslitahlaupið og gat því miður ekki byrjað hlaupið.

Annað stórt nafn heltist úr lestinni þegar heimamaðurinn Allen þjófstartaði og var dæmdur úr leik. Allen brást við byssunni 0,099s eftir að skotið reið af en það er talið þjófstart ef hlauparar bregðast hraðar við byssunni en 0,1 sekúndu – gæti ekki hafa verið tæpara hjá Allen. Hann kveður því svið frjálsra íþrótta á svekkjandi hátt en hann hefur samið við Philadelphia Eagles liðið í bandarísku NFL deildinni í amerískum fótbolta og mun snúa sér að þeirri íþrótt eftir tímabilið.

Holloway leiddi úrslitahlaupið allt frá byrjun til enda og vann örugglega á 13,03s (+1,2). Hann varði þar með heimsmeistaratitil sinn frá því í Dóha 2019. Cunningham endaði annar á tímanum 13,08s og Spánverjinn Asier Martínez nældi í brons á 13,17s sem er persónulegt met hjá honum.

Þrefalt hjá heimamönnun í kúlu og tvöfalt í stangarstökkinu

Heimsmethafinn Rayn Crouser vann kúluvarp karla á nýju meistaramótsmeti, 22,94m. Hann bætti þar með met Joe Kovacs frá Dóha um þrjá sentimetra. Kovacs varð annar með kasti upp á 22,89m og Josh Awotunde þriðji á persónulegu meti, 22,29m. Kúluvarpskeppnin var skemmtileg en alls skiptust þeir Crouser og Kovacs á forystunni þrisvar. Heimamenn unnu þar með þrefalt og var það í annað sinn sem það gerist á mótinu en þeir unnu einnig þrefalt í 100m hlaupi karla.

Bandaríkjamenn unnu síðan tvöfalt í stangarstökki kvenna. Ólympíumeistarinn Katie Nageotte og bandaríski meistarinn Sandi Morris stukku hæst allra, 4,85m. Nageotte fór yfir hæðina í fyrstu tilraun og fékk því gullið en Morris, sem hafði verið afar örugg og ekki átt neitt fall á hæðunum á undan, fór yfir í annarri tilraun og varð því að sætta sig við silfrið. Þetta eru þriðju silfurverðlaun hennar á heimsmeistaramóti utanhúss í röð. Ástralinn Nina Kennedy fékk brons en hún stökk 4,80m.

Bandaríkjamenn eru að gera frábært mót á heimavelli en þeir hafa samtals unnið til fjórtán verðlauna á mótinu hingað til, þar af sex gullverðlauna, og sitja langefstir á verðlaunatöflunni.