HM í Eugene: Engin átti roð í Rojas

Heimsmethafinn Yulimar Rojas frá Venesúela sigraði örugglega í þrístökki kvenna á heimsmeistaramótinu í Eugene í nótt. Þar með bætti hún við enn einu gullinu í sitt stóra gullverðlaunasafn en fyrir átti hún tvenn gullverðlaun frá HM utanhúss ásamt þremur frá HM innanhúss og einu Ólympíugulli.

Það var þó Jamaíkukonan Shanieka Rickets sem leiddi keppnina eftir fyrstu umferð með stökki upp á 14,89m en Rojas, sem var aðeins að keppa á sínu öðru móti í sumar, opnaði með 14,60m. Strax í næstu umferð stökk Rojas 15,47m og tók örugga forystu. Það stökk er það fimmta lengsta í sögunni og einungis þremur sentimetrum frá mótsmeti Inessu Kravets frá árinu 1995 sem var einnig heimsmet þar til Rojas sló það á Ólympíuleikunum í fyrra.

Engin önnur komst nálægt þessu risastökki Rojas en það var bara spurning um hvort heimsmetið myndi falla í næstu umferðum. Það kom ekki í þetta sinn en við fengum þó að sjá frábæra stökkseríu hjá heimsmethafanum sem stökk alls þrisvar yfir 15 metra. Rickets endaði önnur en hennar lengsta stökk kom í fyrstu umferðinni. Þriðja var heimakonan Tori Franklin með stökki upp á 14,72m.