HM í Eugene: Kipyegon endurheimti titilinn

Faith Kipyegon endurheimti heimsmeistaratitil sinn í 1500m hlaupi á HM í Eugene í nótt. Þessi tvöfaldi Ólympíumeistari, sem vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil í London 2017, var staðráðin í að vinna gullið sem hún missti í hendur Sifan Hassan í Dóha 2019. Hassan var ekki skráð til keppni í 1500m en hún ákvað að keppa í 5.000 og 10.000m hlaupum á mótinu.

Hlaupið í nótt byrjaði gífurlega hratt, eiginlega fáránlega hratt. Eþíópíukonurnar Hirut Meshesha og Gudaf Tsegay keyrðu upp hraðann strax í byrjun og ljóst var að þær vildu ekki spila hlaupið upp í hendurnar á Kipyegon sem er mikil endasprettsmanneskja. Einungis Kipyegon og Bretinn Laura Muir gátu farið með þeim. Þær fóru í gegnum fyrstu 400m á 58,82s og í gegnum 800m á 2:03,08. Þá byrjaði Meshesha að stífna upp og dróst aftur úr. Tsegay, Kipyegon og Muir voru jafnar þegar bjallan gall en Kipyegon reyndist sterkust á lokahringnum og kom í mark á tímanum 3:52,96 sem er sekúndu frá mótsmeti Hassan frá því í Dóha. Tsegay varð önnur á 3:54,52 og Muir þriðja á 3:55,28. Þetta voru fyrstu verðlaun Muir á heimsmeistaramóti en hún vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Tókýó. Freweyni Hailu frá Eþíópíu endaði fjórða á 4:01,28 og var þetta mesti munur á þriðja og fjórða sæti í sögu heimsmeistaramótsins.

Uppfært 19.07.22 kl. 17:00

Upphaflega var greint frá því að Tsegay hafi farið í gegnum fyrstu 400m á 55,12s líkt og upphafleg úrslit hlaupsins sögðu til um. Hið rétta er þó að þær hlupu fyrsta hringinn á 58,82s og hefur það hér með verið leiðrétt.