HM í Eugene: Thiam sýndi mátt sinn – umfjöllun um sjöþraut kvenna

Sextán keppendur voru skráðar í sjöþraut kvenna á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Oregon í Bandaríknjunum. Það var stutt, og raunar ekkert gaman fyrir Odile Ahouanwanou frá Benín sem fékk ekki vegabréfsáritun inn í landið. Afríkumeistarinn í sjöþraut var að vonum vonsvikin yfir þessari niðurstöðu en því fór sem fór. Eftir voru fimmtán.

100 metra grindarhlaup

Michelle Atherley hljóp hraðast allra í grindarhlaupinu, 13.12 sekúndur sem gefa 1106 stig. Svisslendingurinn Annik Kalin var næst hröðust og bætti sinn besta árangur, hún hljóp á 13.17 sekúndum. Anna Hall frá Bandaríkjanum byrjaði líka vel og hljóp á 13.20 sekúndum.

Nafi Thiam frá Belgíu sem þótti sigurstranglegust í þrautinni bætti sinn besta árangur í grindarhlaupinu og hljóp á 13.21 sekúndu. Bretinn Katarina Johnsson – Thompson hljóp á sínum besta tíma í ár en varð aðeins þrettánda hröðust af fimmtán keppendum sem hófu leik. Hollendingurinn Anouk Vetter hljóp vel og kom í mark á 13.30 sekúndum. Svisslendingurinn Annik Kalin bætti sinn besta árangur og hljóp á 13.17 sekúndum.

Allar íþróttakonurnar sem Pólverjinn Paulina Ligarska fengu yfir 1000 stig fyrir tíma sinn.

Hástökk

Nafi Thiam stökk hæst allra í hástökkinu, eitthvað sem við mátti búast. Hún vippaði sér yfir 1.95 metra og fékk fyrir það 1171 stig. Pólverjinn Adriana Sulek var önnur í hástökki með 1.89 metra og stökk með því upp í annað sætið í þrautinni.

Anna Hall og Claudia Conte frá Spáni stukku báðar 1.86 metra. KJT stökk 1.83 metra sem er jöfnun á hennar besta stökki í ár en samt töluvert frá hennar besta.

Anouk Vetter stökk 1.80 sem er hennar besta á árinu.

Staðan eftir hástökki var Thiam – Sulek – Hall.

Kúluvarp

Anouk Vetter stimplaði sig rækilega inn í þrautina í kúluvarpinu en hún er frábær kastari. Vetter varpaði kúlunni 16.25 metra sem er bæting hjá henni og gaf henni 945 stig. Thiam hélt áfram í góðum takti og kastaði 15.03 metra, landa hennar Noor Vidts kastaði 14.43 metra sem er bæting.

Sulek og Hall bættu sig báðar í kúlunni, báðar í miklu stuði. KJT varpaði kúlunni 12.92 metra sem er ágætt fyrir hana en samt tapaði hún mörgum stigum á efstu konur.

Staðan eftir kúluna var Thiam – Vetter – Sulek.

200 metra hlaup

Anna Hall hljóp hraðast allra í 200 metra hlaupinu. Hall hljóp á 23.08 sekúndum sem er bæting hjá henni og gáfu henni 1071 stig. KJT minnti aðeins á sig með næst hraðasta tímanum, 23.62 sekúndum og Anouk Vetter var þriðja á 23.73 sekúndum sem var enn og aftur hennar besta á árinu.

Adriana Sulek bætti sinn besta tíma en hún var fjórða á 23.77 sekúndum.

Thiam átti ágætt hlaup og rann 200 metrana á 24.39.

Eftir fyrri daginn var staða efstu kvenna þannig að:

Thiam – 4071 stig (+ 15 stig miðað við bestu þraut)

Vetter – 4010 stig (+ 167 stig miðað við bestu þraut)

Hall – 3991 stig (+ 210 stig miðað við bestu þraut)

Skammt á eftir var Sulek með 3982 stig. Athygli vakti að í fimmtánda og seinasta sæti var Kendell Williams með 3481 stig sem er 443 frá fyrri degi í hennar bestu þraut.

Langstökk

Seinni dagurinn hófst snemma á mánudagsmorgni með langstökki. Þar stökk Thiam lengst (6.59 metra) sem gáfu henni 1036 stig. Önnur var Annik Kalin með 6.56 metra og þriðja var Vetter með 6.52 metra sem er bæting hjá henni. Sulek bætti sig einnig og stökk 6.43 metra. Anna Hall var skammt undan með 6.39 metra.

KJT varð sjöunda með 6.28 metra og Kendell Willams var síðust með 5.59 metra.

Sophie Weissenberg frá Þýskalandi og Xénia Krizsán frá Ungverjalandi gerðu öll sín þrjú stökk ógild og fengu núll stig fyrir vikið.

Staðan eftir langstökkið var Thiam – Vetter – Sulek. Sulek stökk fjórum stigum fram fyrir Hall.

Spjótkast

Anouk Vetter sýndi í spjótinu hversu frábær kastari hún er með því að kasta 58.29 metra þar. Fyrir greinina fékk hún 1021 stig og hoppaði upp fyrir Thiam í efsta sæti þrautarinnar. Thiam kastaði 53.01 metra sem er besti árangur hennar á árinu. Emma Oosterwegel kastaði 54.03 metra og sem er hennar besti árangur á árinu.

Anna Hall bætti sig með kasti upp á 45.75 metra og Sulek sem er slök í spjóti kastaði 41.63 metra.

Staðan eftir spjótkastið var Vetter – Thiam – Hall. Það munaði 19 stigum á Vetter og Thiam og Hall var tæplega 300 stigum á eftir Thiam. Sulek missti Hall fram úr sér og var 75 á eftir Hall í þriðja sæti.

Weissenberg og Krizsán mættu ekki til leiks og eftir voru þrettán.

800 metra hlaup

Úrslitin réðust í 800 metra hlaupinu. Thiam þurfti að hlaupa hraðar en Vetter til þess að tryggja sér sigur. Hún gerði það og bætti sinn besta árangur í hlaupinu með því að hlaupa 2:13.00 mín. Vetter hljóp 2:20.09 mín. Anna Hall sigraði hlaupið á 2:06.67 mín og dróg Sulek með sér í bætingu, 2:07.18 mín.

Kendell Williams mætti ekki til leiks í 800 metra hlaupið. Eftir stóðu 12.

Sjöþraut

Nafi Thiam sigraði með 6947 stig sem er besti árangur í heiminum í ár.

Anouk Vetter bætti sig og setti landsmet með 6867 stig í öðru sæti og þriðja var Anna Hall með bætingu, 6755 stig.

Fjórða sætið féll í skaut Sulek með nýtt Pólskt met, 6672 stig. Noor Vidts var fimmta með 6559 stig og í sjötta sæti var Annik Kalin með 6464 stig sem er nýtt landsmet í Sviss.

KJT endaði í áttunda sæti með 6222 stig, smá vonbrigði fyrir hana en hún getur eflaust bætt einhverju við þetta skor á EM í Munich eftir mánuð.

Frábær þraut hjá Thiam og sýndi hún og sannaði að hún er besta þrautarkonan í heiminum í dag.