HM í Eugene: Warholm, Benjamin eða dos Santos?

Heimsmeistaramótið í Eugene er hálfnað og erum við á fyrsta degi af þremur án morgun dagskrá. Það eru fjórar úrslita keppnir á dagskrá í kvöld og eru greinarnar ekki af verri endanum. 

Er Warholm í formi til þess að verja titilinn sinn?

Úrslit í 400 metra grindahlaupi karla er í kvöld og Norðmaðurinn Karsten Warholm hefur titil að verja. Fyrir mótið voru menn að velta fyrir sig hvort Warholm væri í formi eftir að hann meiddist aftan í læri í sínu fyrsta hlaupi í sumar og hafði ekki klárað eitt hlaup fyrir meistaramótið. Warholm leit vel út í undanúrslitunum og er þá stóra spurningin hvort Norðmaðurinn sé nógu hraður til að vinna helstu keppinauta sína, Rai Benjamin og Alison dos Santos. Dos Santos hefur verið að hlaupa best af þeim þremur í ár, Benjamin sigraði Bandaríska meistaramótið og má segja að hann ætti að þekkja brautina ansi vel þar sem fimm af sjö hlaupum hans (ef undanrásir eru taldir með) í ár hafa farið fram á Hayward Field. 

Allt opið í kringlukasti karla

Þrátt fyrir að Slóveninn Kristjan Ceh hefur verið mest sannfærandi í sumar er ríkjandi heimsmeistarinn Daniel Stahl með lengsta kastið í ár en þó aðeins 20 cm lengra en Slóveninn. Þeir eru báðir með kast yfir 71 metra og eru fjórtán ár síðan að tveir kastarar eiga árangur yfir þessa vegalengd á sama tímabili. 

Hinn ungi Mykolas Alekna kastaði lengst allra í undankeppninni og Ceh þar á eftir. Simon Pettersson náði sínum ársbesta árangri og varð þriðji inn í úrslitin. Einnig má ekki afskrifa Litháann Andrius Gudzius og Lukas Weisshaidinger en þeir hafa báðir kastað yfir 69 metra í ár. 

Mahuchikh eða ástralía?

Hástökk kvenna er fyrsta úrsitagrein kvöldsins og má segja að þetta verður hörku keppni á milli Ástralíu og Úkraínu. Ástralinn Nicola Olyslagers (áður McDermott) var önnur á Ólympíuleikunum í Tókýó á síðasta ári á eftir Mariya Lasitskene og var þá Yaroslava Mahuchikh í þriðja sæti. Mahuchikh hefur þó verið að sýna betra form í sumar og þrátt fyrir smá bakslag á demantamótinu í Stokkhólmi sigraði hún í Eugene (með 2,00m), Rabat, Paris (2.01) og í Brno (2.03). 

Eleanor Patterson frá Ástralíu varð önnur á eftir Mahuchikh á heimsmeistaramótinu innanhúss í byrjun árs og gerir það þessu keppni á milli þessa tveggja þjóða gríðarlega spennandi. Iryna Gerashchenkov and Elena Vallortigara gætu einnig blandað sér í verðlaunabaráttuna. 

Einnig eru úrslitin í 1500 metra hlaupi karla í kvöld sem inniheldur Jakob Ingebrigtsen og Timothy Cheruiyot. Riðlar í 400m grindahlaupi  kvenna með stjörnunum Sidney McLaughlin, Dalilah Muhammad og Femke Bol og undanúrslit í 200 metra hlaupi karla og kvenna. Þetta verður allt í þráðbeinni á RÚV og hefst útsending klukkan 00:00.