HM í Eugene: Dos Santos kom, sá og sigraði

Ein af þeim greinum sem beðið var með hvað mestri eftirvæntingu á HM í Eugene var 400m grindahlaup karla. Þar voru allir verðlaunahafarnir frá Tókýó mættir til leiks – í misgóðu formi þó. Ýmis skakkaföll voru hjá Ólympíumeistaranum Karsten Warholm og silfurverðlaunahafanum Rai Benjamin í sumar á meðan bronsverðlaunahafinn, Brasilíumaðurinn Alison dos Santos, hafði átt frábært tímabil. Lesa má allt um að hér.

Í 400m grindahlaupi er mikilvægt að hitta vel á allar grindurnar svo þær hægi sem minnst á hlaupurunum. Það er mismunandi eftir hlaupurum hversu mörg skref þeir taka á milli grindanna en þeir eru yfirleitt með ákveðið skrefaplan fyrir hvert hlaup.

Karsten Warholm byrjaði hlaupið af krafti líkt og hann gerir alltaf og var í forystu fram að sjöundu grind. En dos Santos byrjaði líka vel. Hann er einn af fáum grindahlaupurum í sögunni sem hafa hlaupið með 12 skrefum á milli grindanna en það gerir hann yfirleitt milli 2. og 6. grindar. Warholm, sem er ekki kominn í sitt besta form eftir að hafa tognað aftan í læri í upphafi tímabils, náði ekki að halda hlaupið út. Hann skipti úr 13 skrefum yfir í 15 á 7. grind en þegar hann er í sínu besta formi hleypur hann yfirleitt með 13 skrefum á að minnsta kosti 8. grind. Við þetta hlekktist honum á og hann náði aldrei upp hraðanum í hlaupinu aftur. Ólympíumeistarinn endaði sjöundi á 48,42s. Hann er því mannlegur eftir allt saman. Þetta er í fyrsta skipti í fjögur ár sem Warholm tapar hlaupi, ef frá er talið hlaupið sem hann tognaði í og kláraði ekki í byrjun sumars.

Dos Santos kláraði hins vegar hlaupið vel og endaði á nýju meistaramótsmeti, 46,29s. Hann bætti þar með mótsmet Kevin Young um 89 hundraðshluta úr sekúndu. Þetta er jafnframt þriðji besti tími sögunnar. Benjamin, sem byrjaði hlaupið nokkuð rólega, kom sterkur síðustu 200 metrana og endaði annar á 46,89s. Landi hans, Trevor Bassit, varð óvænt þriðji á nýju persónulegu meti, 47,39s.