HM í Eugene: Grunsamlega góðir viðbragðstímar vekja upp spurningar

Á þriðja keppnisdegi heimsmeistaramótsins í Eugene í Bandaríkjunum unnu heimamenn níu verðlaun en aldrei í sögunni hefur ein þjóð unnið til jafnmargra verðlauna á einum og sama deginum. Eftir daginn var þó lítið rætt og ritað um árangur bandarísku verðlaunahafanna og meira fjallað um einn af þeim fáu Bandaríkjamönnum sem mistókst að vinna til verðlauna, Devon nokkurn Allen.

Allen var mættur til leiks í úrslit 110 metra grindahlaups karla ásamt löndum sínum, þeim Grant Holloway og Trey Cunningham. Þessi 27 ára gamli grindahlaupari ætlar að yfirgefa sjónarsvið frjálsra íþrótta eftir tímabilið og reyna fyrir sér í bandarísku NFL deildinni. Hann dreymdi um að kveðja íþróttina með heimsmeistaratitli á heimavelli en á háskólaárunum keppti Allen fyrir Oregonháskóla sem hefur Hayward Field, völlinn sem hýsir HM í ár, fyrir heimavöll. Allen var búinn að hlaupa á besta tíma ársins í greininni sem jafnframt er þriðji besti tími sögunnar. Hann var því til alls líklegur og bjuggust margir jafnvel við þreföldum sigri Bandaríkjamanna.

Draumur Allens varð hins vegar að martröð á svipstundu. Við ræsingu hlaupsins brást hann við aðeins 99 þúsundustu úr sekúndu eftir að skotið reið af og samkvæmt reglubókinni er það þjófstart. Já, þið lásuð rétt. Allen brást við byssunni eftir að skotið reið af en þjófstartaði samt. Allen skildi ekkert í dómnum og áhorfendur ekki heldur. Í endursýningum af startinu var ekki hægt að sjá að hann hefði þjófað.

Hér má sjá startið umdeilda. Dæmi hver fyrir sig. Allen er til hægri en landi hans, Holloway, til vinstri.

Allen var samt sem áður sýnt rauðsvarta spjaldið og hann dæmdur úr leik. Hlaupið var ræst á nýjan leik og landar hans, Holloway og Cunningham, komu fyrstir í mark og unnu gull og silfur. Hefði Allen brugðist við einum þúsundasta úr sekúndu síðar hefði draumur hans getað orðið að veruleika og Bandaríkjamenn líklega unnið þrefalt. Og við furðum okkur á því að fólk skilji oft ekki reglurnar í frjálsum íþróttum.

Allen ræðir hér um dóminn við ræsi hlaupsins.
Sjá má viðbragðstíma hlauparanna til vinstri á myndinni.
Mynd: Bleacher Report.

Árið 1991 var ritað í reglubók frjálsra íþrótta að bregðist spretthlaupari við byssuskoti hraðar en tíunda hluta úr sekúndu skuli vera dæmt á hann þjófstart. Ómögulegt á að vera fyrir nokkurn mann að bregðast hraðar við og því hljóti viðkomandi að hafa þjófstartað. En stöldrum aðeins við. Er það virkilega svo að enginn maður geti brugðist hraðar við? Hver ákveður hvað teljist mannlegur og ómannlegur viðbragðstími? Hvað segja vísindin?

Viðbragðstími í sprett- og grindahlaupum er sá tími sem líður frá því að skotið er úr byssunni þar til hlauparinn fer af stað. Í stuttu máli samanstendur hann af þeim tíma sem það tekur hljóðið af skotinu að ferðast úr byssunni að eyra hlauparans samanlagt við þann tíma sem það tekur eyrað að nema hljóðið og senda boð til heilans, tímann sem það tekur taugaboðið að ferðast frá heila í vöðva hlauparans og tímann sem það tekur vöðvana að framkalla hreyfingu. Í startblokkunum eru nemar sem nema spyrnu hlauparanna í blokkina og ef viðbragðstíminn mælist undir 0,100 sekúndu kemur sjálfkrafa annað skot úr byssunni og sá seki er dæmdur úr leik.

Þó ég hafi tekið einn áfanga í lífeðlisfræði þegar ég stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík hér um árið, þá telst ég seint vera vel að mér í faginu. Ég veit þó töluvert, enda menntaður verkfræðingur. Og við verkfræðingar vitum allt, ekki satt? Allavega ef þú spyrð okkur verkfræðingana. Svarið er að öllum líkindum nei ef þú spyrð einhvern annan. En hvað um það. Viðmiðið um hvað teljist ómannlegur viðbragðstími virðist, allavega með augum verkfræðingsins, ekki standa á föstum vísindalegum grunni. Samkvæmt Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu byggir það í grunninn á mælingum sem framkvæmdar voru í Vestur- og Austur-Þýskalandi á 7. og 8. áratug síðustu aldar.

Vestur-þýsku mælingarnar sýndu engan viðbragðstíma undir 0,12 sekúndum en þær austur-þýsku sýndu meðalviðbragðstíma upp á 0,110 sekúndur hjá körlum og 0,118 sekúndur hjá konum. Þegar ég las þetta fór ég strax að velta því fyrir mér af hverju austur-þýsku spretthlaupararnir mældust með hraðara viðbragð en þeir vestan megin. Ég er með ákveðna tilgátu en það er önnur saga. Aðferðafræði mælinganna var þó töluvert ólík og lesa má nánar um það á blaðsíðum 36-39 í þessu skjali hér.

Byggt á þessum niðurstöðum, og öðrum gögnum frá ýmsum mótum þar sem viðbragðstímar voru mældir, varð lendingin sú að setja mörkin á löglegum viðbragðstíma við 0,100 sekúndu. Rannsóknir höfðu ekki sýnt svo góðan viðbragðstíma en mikilvægt þótti að hafa allan varann á ef ske kynni að óvenju viðbragðsglaður hlaupari mætti á startlínuna. Sem sagt, það virðist sem svo að einhver hafi sett puttann upp í loftið og tekið ákvörðun út frá því – eða því sem næst. En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan á 8. áratug síðustu aldar. Vestur- og Austur-Þýskaland hafa sameinast í eitt Þýskaland, vísindunum hefur fleygt fram og tækninni sömuleiðis.

Niðurstöður rannsóknar frá árinu 2009, sem framkvæmd var fyrir tilstuðlan Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, sýnir til að mynda að viðbragðstími sé afar breytilegur milli einstaklinga. Niðurstöðurnar sýndu ennfremur að viðbragðstími gæti verið allt niður í 0,080 sekúndur hjá ákveðnum einstaklingum. Í kjölfarið var lagt til að löglegur viðbragðstími yrði færður niður í 0,080 eða 0,085 sekúndur. Eða einfaldlega að hætt verði að dæma þjófstart út frá sjálfvirkum mælingum og notast einungis við myndbandsupptökur til að greina þjófstart. Eins konar VAR frjálsra íþrótta. Af einhverjum ástæðum stendur 0,100 sekúndna viðmiðið þó enn óhaggað.

En aftur að Allen og heimsmeistaramótinu í Eugene. Viðbragðstímarnir þar hafa verið mjög góðir. Allen var ekki sá eini sem var dæmdur úr leik vegna skjóts viðbragðs en tvær voru dæmdar úr leik í undanúrslitum 100 metra hlaups kvenna af sömu ástæðu. Þegar nánar er að gáð eru viðbragðstímarnir á mótinu grunsamlega góðir. Í undanrásum, undanúrslitum og úrslitum 100 metra hlaups og 110 metra grindahlaups karla á heimsmeistaramótum áranna 2011 til 2019 mældist viðbragðstími alls sjö sinnum á milli 0,100 og 0,115 sekúndur. Í Eugene gerðist það átján sinnum.

Fjöldi viðbragðstíma milli 0,100-0,115 sek. í 100m og 110m gr. karla á síðustu sex Heimsmeistaramótum.

Hvað er eiginlega í gangi í Eugene? Hafa spretthlauparar bætt viðbragð sitt svona gífurlega mikið á síðustu þremur árum eða er eitthvað annað í gangi? Mig grunar það síðarnefnda. Nú er ég ekki tölfræðingur (ég er verkfræðingur, þið munið) en tel mig þó vita með nokkurri vissu að engar líkur eru á að þetta gerist án þess að eitthvað undarlegt sé á seyði. Mig grunar að þjófstartsbúnaðurinn hafi jafnvel verið rangt stilltur. En við munum líklegast aldrei fá svar við þeirri spurningu.

Spurningin sem við þurfum hins vegar skýrt svar við er þessi: Hversu hratt er lífeðlisfræðilega mögulegt fyrir spretthlaupara að bregðast við byssuskoti? Eða eigum við kannski að hætta að reyna að setja tölu á hvað teljist mannlegur eða ómannlegur viðbragðstími og nota frekar augun okkar í að greina þjófstört?