Heimsmeistarinn í 100 metra hlaupi, Bandaríkjamaðurinn Fred Kerley, féll óvænt úr leik í undanúrslitum 200 metra hlaupsins í nótt. Kerley átti ekki gott hlaup og var aldrei í baráttunni um efstu tvö sætin í riðlinum sem gáfu sæti í úrslitum. Hann endaði í sjötti í riðlinum á 20,68s (-0,1). Kerley virtist ekki geta beitt sér á fullu í hlaupinu og í viðtali eftir hlaupið sagðist hann hafa verið við það að fá krampa. Mögulega hefur sigurhlaupið í 100 metrunum tekið sinn toll.
Það er því ljóst að Kerley muni ekki vinna tvennuna en hann á þó möguleika á verðlaunum í 4×100 metra boðhlaupinu ef hann nær sér heilum fyrir það. Þar eru Bandaríkjamenn líklegir til sigurs, þ.e.a.s. ef þeir ná að skila keflinu í mark en það hefur oft á tíðum reynst þeim ofviða.
Annars var lítið um óvænt úrslit í 200 metra hlaupum næturinnar. Bandaríkjamennirnir Noah Lyles, Kenneth Bednarek og Erriyon Knight áttu bestu tímana í undanúrslitunum. Það er því enn möguleiki á þreföldum bandarískum sigri í 200m líkt og í 100 metra hlaupinu.
Kvennamegin litu Jamaíkukonurnar Shericka Jackson og Shelly-Ann Fraser-Pryce best út. Landa þeirra, Elaine Thompson-Herah, leit ekki eins vel út en komst þó í úrslit. Þær gætu því unnið þrefalt eins og í 100 metra hlaupinu þó góðar líkur séu á að Jackson og Fraser-Pryce muni eiga sætaskipti.
Úrslit 200 metra hlaupanna fara fram aðra nótt og verða að sjálfsögðu í beinni í sjónvarpi allra landsmanna.