Suður-Afríkukonan Caster Semenya mun keppa á Heimsmeistaramótinu í Eugene í kvöld. Þetta verður fyrsta stórmót Semenyu síðan hún vann sinn þriðja heimsmeistaratitil í 800 metra hlaupi í London árið 2017. Semenya hefur ekki keppt á stórmóti síðan þá vegna reglu sem kemur í veg fyrir að hún geti keppt í hlaupum frá 400 metrum upp í 1.600 metra í kvennaflokki nema hún taki inn lyf sem bælir niður náttúrulega framleiðslu testesteróns.
Semenya, sem fær ekki að keppa í sinni bestu grein, mun reyna fyrir sér í 5.000 metra hlaupi. Hún fékk upphaflega ekki þátttökurétt á mótinu en komst inn eftir að nokkrar konur ofar henni á heimslista ákváðu að hlaupa ekki. Þeirra á meðal er ríkjandi heimsmeistarinn Helen Obiri sem ákvað að einbeita sér einungis að 10.000 metra hlaupinu þar sem hún vann til silfurverðlauna á öðrum degi heimsmeistaramótsins. Semenya er ekki talin eiga mikla möguleika á að blanda sér í baráttuna um verðlaun en hún er í 81. sæti heimslistans í 5.000 metra hlaupi. Hlaupið fer fram í kvöld kl. 23:25 á íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á RÚV.
Þátttaka Semenya vekur enn á ný upp umræðu um þessa umdeildu reglu. Mörgum þykir undarlegt að bannið nái aðeins yfir hlaupavegalengdir frá 400 metrum upp í 1600 metra en ekki aðrar greinar. Þeirra á meðal er Semenya sjálf.
Reglan verður endurskoðuð af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu í haust en búist er við að hún verði hert frekar en hitt. ,,Jafnvægið milli inngildingar og sanngirni mun núna, að mínu mati, alltaf halla í átt að sanngirni,” sagði formaður sambandsins, Sebastian Coe, daginn áður en HM hófst í Eugene.
Aðskilt málefni, en ekki óskylt og ekki síður umdeilt, er umræðan um þátttöku transkvenna í íþróttum. Mikil umræða spannst í kringum ákvörðun Alþjóðasundsambandsins um að banna transkonum að keppa á heimsmeistaramótum. Coe hefur ýjað að því að Alþjóðafrjálsíþróttasambandið muni fylgja fordæmi sundsambandsins þegar reglurnar verða endurskoðaðar í haust.