HM í Eugene: Wightman vann óvænt, Ceh setti mótsmet og Patterson Eyjaálfumet

Bretinn Jake Wightman varð mjög óvænt heimsmeistari í 1500m hlaupi á HM í Eugene í nótt. Ólympíumeistarinn Jakob Ingebrigsten fékk silfur og Spánverjinn Mohamed Katir brons. Keníumaðurinn Timothy Cheruyiot, sem átti titil að verja, endaði sjötti.

Hlaupið var jafnt til að byrja með en fremstu menn fóru í gegnum 400m á 55,5s og 800m á 1:52. Ingebrigsten var í forystu þegar bjallan gall en Cheruyiot og Wightman fylgdu fast á hæla hans. Þegar um 200 metrar voru eftir af hlaupinu jók Wightman hraðann og fór fram úr Norðmanninum. Wightman hélt forystunni allt til loka og kom í mark á tímanum 3:29,23. Ingebrigsten kom í mark 24 hundraðshlutum á eftir Bretanum og Katir, sem átti góðan endasprett, 43 hundraðshlutum þar á eftir.

Vallarþulurinn á mótinu, Geoff Wightman, er faðir og þjálfari Jakes og þegar sonurinn hljóp yfir endalínuna heyrðist í hátölurunum á vellinum: ,,Þetta er sonur minn. Og hann er heimsmeistarinn.”

Gull til Ástralíu

Ástralinn Eleanor Patterson varð heimsmeistari í hástökki kvenna á nýju Eyjaálfumeti. Hún stökk 2,02m líkt og Yaroslava Mahuchikh frá Úkraínu. Patterson fór yfir í fyrstu tilraun en Mahuchikh í annarri og fékk Ástralinn því gullið. Ítalinn Elena Vallortigara varð þriðja með stökki upp á 2,00m. Úkraíunukonan Iryna Gerashchenko stökk einnig 2,00m, sem er persónlegt met, en hún fór yfir í annarri tilraun á meðan Ítalinn fór yfir í sinni fyrstu.

Ceh sett mótsmet

Slóveninn Kristjan Ceh varð heimsmeistari í kringlukasti karla með kasti upp á 71,13m sem er nýtt mótsmet. Bætti hann þar með mótsmet Virgilijus Alekna um tæpan metra. Litháenarnir Mykolas Alekna, sonur Virgilijus, og Andrius Gudzius unnu silfur og brons. Alekna kastaði lengst 69,27m og Gudzius 67,55m. Lærisveinar Vésteins Hafsteinssonar, Svíarnir Daniel Ståhl og Simon Pettersson, enduðu í fjórða og fimmta sæti. Ståhl kastaði 67,10m en Pettersson tíu sentimetrum styttra.

Norðurlandabúarnir Ståhl, Pettersson, Ingebrigsten og Karsten Warholm náðu ekki alveg að leika eftir árangurinn frá því á Ólympíuleikunum í fyrra þegar þeir unnu samtals þrjú gull og eitt silfur. Warholm komst ekki á pall í 400m grindahlaupinu eins og lesa má um hér. Norðulandabúar eiga þó enn góðan möguleika á gulli þegar Svíinn Mondo Duplantis mun keppa í stangarstökki á síðasta keppnigsdegi mótsins.