HM í Eugene: 200 metra veisla í nótt

Þó farið sé að síga á seinni hluta heimsmeistaramótsins í Eugene er samt sem áður nóg eftir og eigum við enn eftir að sjá 18 heimsmeistara í einstaklingsgreinum krýnda áður en yfir lýkur. Í kvöld fara fram tvær úrslitagreinar en það eru úrslitahlaup í 200 m hlaupum bæði karla og kvenna. Auk þess sjáum við forkeppnir í spjótkasti og þrístökki karla, riðlakeppni í 800 m hlaupi kvenna og 5000 m hlaupi karla og undanúrslit í 800 m hlaupi karla. 200 m hlaupin ljúka svo dagskrá kvöldsins.

Tvöfalt þrefalt hjá Bandaríkjunum og Jamaíka?

Sá merkisatburður getur hæglega átt sér stað í kvöld að Bandaríkjamenn vinni þrefalt í 200 metra hlaupi karla og Jamaíkukonur sömuleiðis í kvennahlaupinu, rétt eins og gerðist í 100 m hlaupunum fyrr í vikunni.

Þessi maður hleypur hratt. En hleypur hrann hraðar en allir aðrir í heiminum? Það kemur í ljós klukkan 2:50 í nótt.

Eins og áður hefur verið skrifað um mun Fred Kerley ekki bæta 200 m titli við 100 m titilinn sem hann vann á laugardaginn síðastliðinn en fyrirfram var hann svosem ekki talinn líklegastur. Líklegastir eru landar hans Noah Lyles, sem hraðast hefur hlaupið á 19,61 sekúndu í ár, og ungstirnið Erriyon Knighton sem á best 19,49 sekúndur frá því fyrr í sumar. Það kæmi verulega á óvart ef annar þeirra tæki ekki titilinn, spurningin er bara í hvaða röð þeir koma í mark. Þriðji bandaríkjamaðurinn, Kenneth Bednarek hljóp á sínum ársbesta tíma í undanúrslitunum, 19,84 sekúndum, sem jafnframt var þriðji besti tíminn í undanúrslitunum, á eftir Lyles og Knighton. Þeir sem helst gætu skemmt ameríska drauminn eru Alexander Ogando frá Dóminíska Lýðveldinu sem hljóp á landsmetum bæði í riðlakeppninni og undanúrslitum og Joseph Fahnbulleh frá Líberíu, ríkjandi bandarískur háskólameistari í bæði 100 m og 200 m.

Kvennameginn er staðan sú að þær tvær sem komu fyrstar í mark í 100 m úrslitahlaupinu, Shelly-Ann Fraser-Pryce og Shericka Jackson, eru einnig líklegastar til sigurs í 200 metrunum, nema nú í öfugri röð. Jackson á best 21,55 frá því á jamaíska meistaramótinu fyrr í sumar en persónulegt met Fraser-Pryce, 21,79 sekúndur, er frá því í fyrra. Elaine Thompson-Herah, sem kom þriðja í mark  í 100 metra hlaupinu gæti vel endurtekið leikinn en líklega vilja bandaríkjakonurnar Abby Steiner og Tamara Clark auk ríkjandi heimsmeistara, Dina Asher-Smith, eitthvað hafa um það að segja.

Þessar gætu unnið þrefalt. Aftur. Sem væri reyndar í þriðja skipti því þær unnu líka þrefalt í 100 m á ÓL í Tókýó

Síðast mættust Jamaíkakonurnar þrjár í 200 m hlaupi á jamaíska meistaramótinu í sumar og kom Jackson þá fyrst í mark, þá Fraser-Pryce og loks Thompson-Herah. Þar áður var það á meistaramótinu 2021 en þá hafði Fraser-Pryce betur gegn Jackson en Thompson-Herah tók þriðja sætið líkt og í ár. Á Ólympíuleikunum síðar um sumarið var það þó Thompson-Herah sem vann gullið á næst besta tíma sögunnar, 19,53 sekúndum. Það er því ekkert sem útilokar Thompson-Herah frá því að stela sigrinum óvænt.