Kínverjinn Bin Feng varð afar óvænt heimsmeistari í kringlukasi kvenna á HM í Eugene í nótt. Hún kastaði lengst 69,12m og skákaði þar með heimakonunni Valarie Allman og Króatanum Söndru Perkovic sem flestir bjuggust við að myndu bítast um gullið.
Lengsta kastið kom strax í fyrstu umferð keppninnar og var það bæting á besta árangri Feng um rúma þrjá metra. Fyrir mótið var hennar lengsta kast 66,00m. Perkovic, sem er tvöfaldur Heims- og Ólympíumeistari, komst næst Feng með kasti upp á 68,45m og er það hennar lengsta á árinu. Ríkjandi Ólympíumeistarinn Allman fann sig hins vegar ekki í hringnum í nótt. Hún hafði kastað langlengst allra í ár, 71,46m, en hennar lengsta í keppninni í nótt mældist 68,30m. Allman endaði þriðja en þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem Bandaríkjakona kemst á pall í greininni á heimsmeistaramóti.
Feng, sem komst ekki í úrslit á Ólympíuleikunum í fyrra, var þarna að vinna önnur gullverðlaun Kínverja á mótinu en fyrir hafði Jianan Wang unnið langstökk karla.