HM í Eugene: Stutt gaman hjá Semenyu

Líkt og við fjölluðum um hér á Silfrinu í gær er Caster Semenya mætt á heimsmeistaramót í fyrsta sinn síðan árið 2017. Hún spreytti sig í nýrri grein á mótinu en þessi þrefaldi heimsmeistari og tvöfaldi Ólympíumeistari í 800m hlaupi keppti í undanriðli 5.000m hlaupsins í nótt.

Semenya hljóp í fyrri undanriðlinum og kom í mark í 13. sæti á tímanum 15:46,12. Hún endaði í 28. sæti alls og var um 46 sekúndum frá sæti í úrslitum. Hún hefur því lokið keppni á mótinu. Besta tímann í undanriðlunum átti heimsmethafinn og heimsmeistarinn í 10.000m hlaupinu, Letesenbet Gidey. Búast má við harðri keppni um gullið milli hennar og Sifan Hassan, Margaret Chelimo Kipkemboi og Gudaf Tsegay í úrslitahlaupinu sem fram fer aðfaranótt sunnudags.

,,Mér fannst frábært að fá að hlaupa hérna í dag,” sagði Semenya eftir hlaupið. ,,Bara það að geta klárað hlaupið er blessun. Ég er að læra og ég vil læra ennþá meira. Það var heitt í dag, ég gat ekki haldið í við hraðann en ég reyndi eins og ég gat. En þetta er víst hluti af leiknum.”

Semenya ákvað að færa sig upp í 5.000 metra hlaup eftir að afar umdeild regla sem gerir það að verkum að intersex konur eins og Semenya megi ekki keppa í vegalengdum frá 400 metrum upp í mílu tók gildi árið 2019. Semenya reyndi reyndar fyrst fyrir sér í 200 metra hlaupi en sá fljótlega að það var ekki fyrir sig og ákvað að færa sig yfir í 5.000 metra hlaupið. Hún náði að hlaupa 200 metra hlaupið hraðast á 23,49s.

Óvíst er hvað framtíðin ber í skauti sér hjá Semenyu en Sebastian Coe, formaður Alþjóðafrjálsíþróttasambandins hefur ýjað að því að reglan umdeilda verði hert þegar hún verður endurskoðuð í haust líkt og fjallað var um á Silfrinu í gær. Möguleiki er að á að reglan verði færð yfir á fleiri greinar þó Coe vilji ekkert gefa upp um hvort svo verði. ,,Ég ætla ekki að spekúlera um það, við munum láta vísindin ráða för,” sagði Coe í aðdraganda heimsmeistaramótsins. Það er því möguleiki á að við höfum jafnvel séð þessa frábæru hlaupakonu hlaupa sitt síðasta hlaup á stórmóti.