HM í Eugene: Sjáum við fyrsta heimsmet mótsins í nótt?

Mikil eftirvænting er fyrir keppni næturinnar á Heimsmeistaramótinu í Eugene. Þá fara fram úrslit í 400m grindahlaupi kvenna þar sem búist er við afar hröðu hlaupi. Núverandi heimsmethafinn í greininni, Sydney McLaughlin, er talin sigurstranglegust. Sú sem átti heimsmetið áður en McLaughlin sló það í fyrra, Dalilah Muhammad, er einnig á startlistanum auk þeirrar sem á þriðja besta tíma sögunnar, Hollendingnum Femke Bol.

Við höfum nú þegar séð frábæran árangur á mótinu. Í gær hljóp Shericka Jackson á næstbesta tíma sögunnar í 200m hlaupi kvenna og Noah Lyles á þeim þriðja besta í karlaflokki líkt og við á Silfrinu fjölluðum um fyrr í dag. Auk þess höfum við séð þriðja besta tíma sögunnar í 3.000m hindrunarhlaupi kvenna og 400m grindahlaupi karla. Ekkert heimsmet hefur þó fallið enn. En góðar líkur eru á að það muni breytast í nótt. Mörg telja það nánast öruggt.

Það er í raun ekki spurning um hver muni vinna hlaupið í nótt heldur einungis hversu hratt McLaughlin muni hlaupa. Hún sló heimsmetið tvisvar sinnum í fyrra, fyrst á bandaríska úrtökumótinu fyrir Ólympíuleikana og síðan á leikunum sjálfum. Hún sló svo metið í þriðja sinn á bandaríska meistaramótinu í síðasta mánuði. Þá hljóp hún á 51,41s og bætti metið frá ÓL um fimm hundraðshluta úr sekúndu. McLaughlin kann greinilega vel við sig á Hayward Field en bæði úrtökumótið fyrir ÓL í fyrra og bandaríska meistaramótið í ár fóru þar fram. Hún getur því slegið metið í þriðja sinn á vellinum í nótt, í fjórða sinn alls.

Muhammad hefur lítið keppt í ár vegna meiðsla en hún tognaði lítillega aftan í læri í júnímánuði. Fyrir HM hafði hún hlaupið hraðast í ár á 53,88s á Drake Relays mótinu í apríl en hennar persónulega met er 51,58s frá ÓL í fyrra. Hún keppti ekki á bandaríska meistaramótinu, sem var jafnframt úrtökumót fyrir Heimsmeistaramótið, en komst sjálfkrafa inn á HM sem ríkjandi heimsmeistari. Hún er því svolítið óskrifað blað en leit vel út í undanrásum og undanúrslitunum og er til alls líkleg. Hún er þó ólíkleg til að skáka McLaughlin.

Hollendingurinn hraðskreiði er búin að eiga frábært tímabil og er ósigruð í þeim sex hlaupum sem hún hefur tekið þátt í á tímabilinu. Bol hefur hlaupið hraðast á 52,27s í ár en á best 52,03s frá ÓL í fyrra. Hún er líkleg til að brjóta 52 sekúndna múrinn í nótt en geri hún það verður hún sú þriðja í sögunni til að gera svo.

Annar múr gæti líka fallið í nótt, þá í fyrsta sinn. McLaughlin er nefnilega í svo rosalegu formi að hún gæti allt eins brotið 51 sekúndna múrinn. Það yrði einstakt afrek. Hún fékk litla keppni á bandaríska meistaramótinu en sló samt heimsmetið þá. Hvað ætli hún geri þegar hún fær meiri keppni frá stöllum sínum Muhammad og Bol?

Aðrar eru ekki taldar líklegar til að blanda sér í verðlaunabaráttuna enda þessar þrjár í algjörum sérflokki. Það getur þó allt gerst eins og við sáum í karlahlaupinu þegar heimsmethafinn Karsten Warholm endaði sjöundi. Heimakonan Brittany Wilson hefur hlaupið hraðast í ár á eftir þríeykinu en henni var þó úthlutað fyrstu brautinni í úrslitunum sem gerir það erfitt fyrir hana að valda einhverjum usla. Auk hennar munu Shamier Little frá Bandaríkjunum, Gianna Woodruff frá Panama og Rushell Clayton frá Jamaíku allar berjast um fjórða sætið.

Í nótt verður einnig keppt til úrslita í 400m hlaupum karla og kvenna (án grinda) auk spjótkasti kvenna. Bein útsending hefst á RÚV á miðnætti. Silfrið hvetur öll til að vaka fram eftir í nótt enda ekki á hverjum degi (eða ætti ég að segja hverri nóttu?) sem heimsmet í frjálsum íþróttum er slegið. Nú vonum við bara að ég hafi ekki verið að storka örlögunum með því að rita þetta.