HM í Eugene: Veislan varð að partíi – Magnaðir tímar í 200 m hlaupunum

Í upphitunargrein Silfursins fyrir úrslitin í 200 metra hlaupunum var talað um að framundan væri 200 metra veisla. Ég held að fáir hafi þó gert ráð fyrir því allsherjar partíi sem Shericka Jackson og Noah Lyles buðu í. Fyrirfram voru þau bæði líklegust til sigurs en sigurtímar þeirra voru þess valdandi að undirritaður þurfti að tína hökuna upp af gólfinu.

Heimsmet Flo-Jo loksins í alvarlegri hættu?

Eins og vera ber af 100 metra sérfræðingi æddi Shelly-Ann Fracer-Pryce af stað og var komin með um hálfs skrefs forskot þegar beygjan var hálfnuð. Jackson vann það þó upp í seinni hluta beygjunnar og þær komu hnífjafnar út úr beygjunni með Asher-Smith í humátt á eftir sér. Aðrar voru þá þegar tveimur skrefum eftir þeim fremstu. Í seinni hluta hlaupsins kom 400 metra reynsla Jackson í ljós en þegar 80 metrar voru eftir var Jackson greinilega komin í forystu sem hún jók jafnt og þétt allt til loka. Fraser-Pryce hélt öðru sætinu örugglega og Asher-Smith því þriðja þrátt fyrir harða atlögu frá Aminatou Seyni frá Nígeríu.

Sigurtími Jackson var 21,45 sekúndur, nýtt heimsmeistaramótsmet. Þar með tók hún jamaíska metið af Thompson-Herah frá Ólympíuleikunum í fyrra sem sjálf hafnaði aðeins í sjöunda sæti úrslitahlaupsins. Tími Jackson er jafnframt sá næst besti í sögunni, 11 hundruðustu frá heimsmeti Florence Griffith-Joyner frá 1988. Fraser Pryce hljóp á sínum ársbesta tíma, 21,81 sekúndum, 2 brotum frá sínu persónulega meti. Asher-Smith kom svo í mark á 22,02. Tvöföld jamaísk spretthlaupsþrenna varð því ekki að veruleika.

Bandarískt met og tvöföld spretthlaupsþrenna

Ameríski draumurinn rættist hins vegar í karlahlaupinu en þó ekki með því móti sem búast hefði mátt við. Noah Lyles byrjaði hlaupið hratt og var strax eftir aðeins nokkra metra kominn í forystu. Hann náði mesta hámarkshraðanum, fór hraðast í gegnum 100 metrana og hélt hraðanum best út. Það er ágætis uppskrift að sigri. Allt frá byrjun átti enginn roð í Lyles og sá sem helst átti að geta veitt honum keppni, Erriyon Knighton, var allan tímann langt á eftir. Í síðustu rimmu þeirra tveggja á bandaríska meistaramótinu kom Knighton 2 metrum á undan Lyles úr beygjunni sem Lyles náði að vinna upp á beina kaflanum. Með það í huga var því nokkuð ljóst í nótt þegar úr beygjunni var komið að Knighton myndi ekki ná Lyles. Raunar náði Knighton ekki einu sinni öðru sætinu því á milli þeirra Lyles og Knighton kom Kenneth Bednarek í mark og hirti þar með silfrið.

Sigurtími Lyles var ótrúlegur. Þegar hann kom í mark sýndi klukkan 19,32 sekúndur, sem hefði verið jöfnun á bandarísku meti Michael Johnson frá 1996. Eftir nokkrar þrúgandi sekúndur var tíminn svo rúnnaður niður í 19,31 og nýtt bandarískt met staðreynd. Eina eftirstandandi heims- eða landsmet Johnson er því met hans í 400 metra hlaupi, 43,18 sekúndur. Önnur ótengd en áhugaverð staðreynd er að í ár eru 13 ár síðan Usain Bolt setti sitt heimsmet í 200 m hlaupi (2009). Það er jafn langur tími og leið á milli heimsmets Johnson og heimsmets Bolt. Tími Bednarek í úrslitahlaupinu var 19,77 sekúndur og tími Knighton 19,80. Tvöföld bandarísk spretthlaupsþrenna varð því að veruleika.