MÍ 15-22 um helgina: Tveir Íslandsmethafar mæta til leiks

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram um helgina á nýjum og glæsilegum velli ÍR-inga í Mjóddinni. Alls eru 133 keppendur skráðir til leiks á mótið. Þar af eru tveir Íslandsmetahafar, ÍR-ingarnir Erna Sóley Gunnarsdóttir og Elísabet Rut Rúnarsdóttir. Á vef Frjálsíþróttasambandsins má sjá góða yfirferð yfir helstu keppendur á mótinu.

Mótið verður fyrsta stóra mótið á nýja ÍR-vellinum. Mörg vilja meina að hlaupabrautin, sem skartar fagurbláu Mondo-efni, sé sú hraðasta á landinu. Það verður því áhugavert að sjá hver árangurinn verður í spretthlaupunum á mótinu og hvort við munum sjá margar persónulegar bætingar. Það veltur þó allt á vindhraðanum um helgina en það er oft á tíðum vindasamt á vellinum.

Silfrið mun að sjálfsögðu flytja fréttir af mótinu en fyrir áhugasama verður hægt að fylgjast með úrslitum mótsins í rauntíma hér.