HM í Eugene: Eitt besta hlaup frjálsíþróttasögunnar – McLaughlin rústaði eigin heimsmeti

Gífurleg eftirvænting var fyrir úrslitum 400m grindahlaups kvenna á Heimsmeistaramótinu í Eugene í nótt. Á ráslínuna voru mættar þær þrjár hröðustu í sögunni, Bandaríkjakonurnar Sydney McLaughlin og Dalilah Muhammad ásamt Hollendingnum Femke Bol. Eins og fjallað var um á Silfrinu í gær var fyrirfram talið nánast öruggt að heimsmethafinn McLaughlin myndi taka gullverðlaunin. Það var einungis spurning um hversu hratt hún myndi hlaupa.

Það varð ljóst um leið og skotið reið af í nótt að McLaughlin var ekki mætt til að leika sér. Strax á þriðju grind var McLaughlin komin greinilega á undan Muhammad en sú síðarnefnda er þekkt fyrir að byrja hlaup sín afar hratt á meðan McLaughlin er yfirleitt sterkari í lok hlaupsins. Heimsmethafinn fór í gegnum fyrstu 200 metrana á 24,24s – tími sem margar væru nokkuð sáttar með að hlaupa í 200 metra hlaupi án grinda. Femke Bol hljóp fyrri helming hlaupsins á 24,97s og Muhammad fylgdi þar fast á eftir á 25,03s.

McLaughlin gaf ekkert eftir á seinni 200 metrunum og kom langfyrst í mark. Allra augu beindust þá frá McLaughlin og að vallarklukkunni. Klukkan sýndi tímann 50,68s. McLaughlin féllust hendur, hún hristi höfuðið og ætlaði vart að trúa eigin augum. ,,Takk Guð, takk guð,” sást heimsmeistarinn nýbakaði, sem er afar trúuð, segja endurtekið og virtist ekki alveg átta sig á því hvað hún hafði gert. Hún var búin að bæta eigið heimsmet í þriðja sinn á ferlinum og í fjórða sinn alls. En hún var ekki einungis búin að bæta metið, hún var búin að rústa því. Þetta var bæting á metinu um 73 hundraðshluta úr sekúndu og 51 sekúndna múrinn kolfallinn. Til að setja tímann í smá samhengi þá hefði McLaughlin með þessum tíma endað í sjöunda sæti í úrslitum 400m hlaupsins, án grinda þ.e.a.s.

Bol endaði önnur á 52,27s sem er jöfnun á hennar besta tíma á árinu en hún á best 52,03s frá Tókýó í fyrra. Þetta voru önnur silfurverðlaun Bol á mótinu en hún vann einnig silfur með félögum sínum í blönduðu hollensku boðhlaupssveitinni á fyrsta keppnisdegi mótsins. Muhammad endaði þriðja á 53,13s.

Þetta er fyrsti heimsmeistaratitill McLaughlin í einstaklingsgrein en hún vann silfur í Dóha 2019. Í því hlaupi setti Muhammad heimsmet þegar hún hljóp á 52,16s. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að það hafi verið heimsmetið fyrir einungis þremur árum síðan.

McLaughlin sat ein á hlaupabrautinni í langan tíma eftir hlaupið. ,,Ég var bara að reyna að vinna úr mjólkursýrunni,” sagði McLaughlin í viðtali eftir hlaupið, ,,og ég vildi líka staldra aðeins við og njóta augnabilksins.” Heimsmeistarinn nýkrýndi var spurð að því hvort þetta hafi verið hið fullkomna hlaup. ,,Ég held að það sé alltaf hægt að bæta sig meira,” sagði hún. ,,Það er ekki til hið fullkomna hlaup. Ég held að þetta hlaup hafi ekki framkvæmt á fullkominn máta.”

Nú hefur McLaughlin unnið allt sem hægt er að vinna í 400m grindahlaupinu auk þess að hafa slegið heimsmetið í greininni fjórum sinnum. Þá er ekki nema von að maður spyrji hvað sé eiginlega næst á dagskrá hjá McLaughlin. Hvernig getur sú sem allt hefur unnið haldið áfram að ögra sér? Vangaveltur eru um að hún muni jafnvel skipta um grein, þá annaðhvort í 400m án grinda eða 100m grindahlaup. Eða jafnvel að hún muni stefna á tvennu á Ólympíuleikunum í París. McLaughlin hefur ekki tekið neina ákvörðun um það og ætlar sér bara að gera það sem þjálfari hennar, Bobby Kersee, segir henni að gera. ,,Fólk er að tala um að ég muni skipta um grein. Eða að ég muni stefna á tvennuna. Ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá hef ég ekki hugmynd um hvað ég muni gera.”

Undirritaður setti niður á blað sínar hugleiðingar varðandi þetta eftir að McLaughlin sló heimsmetið í þriðja sinn á bandaríska meistaramótinu í síðasta mánuði. Áhugasöm geta lesið þann pistil hér (ég vil þó benda á að forsendur þess sem ég fjalla um í pistlinum hafa gjörbreyst eftir hlaupið í nótt).