HM í Eugene: Fimm úrslitagreinar í kvöld

Níundi og næstsíðasti keppnisdagur heimsmeistaramótsins í Eugene er í dag. Tugþrautarkeppnin er í fyrirrúmi en Ísak Óli hefur nú þegar gert henni góð skil hér. Í morgunhluta dagsins verður keppt í riðlakeppni í 100 m grind og í langstökki kvenna og þá fara undanrásir í 4×400 metra hlaupunum fram í kvöld/nótt. Við fjöllum meira um þær greinar þegar nær úrslitunum dregur.

Í kvöld er svo heill haugur af úrslitagreinum á dagskrá. Fyrstir á svið eru karlar í þrístökki. Af þeim sem skráðir eru til leiks á Portúgalinn Pedro Pablo Pichardo lengsta stökkið í sumar, 17,49 metra en hann er einn þriggja 18 metra manna sem keppa í kvöld. Hinir eru Hugues Fabrice Zango frá Búrkína Fasó og Will Claye frá Bandaríkjunum. Kúbverjarnir tveir sem eiga lengstu stökk ársins taka ekki þátt en sá þriðji, Lázaro Martínez, sem stökk 17,64 metra innanhúss í mun að öllum líkindum blanda sér í verðlaunabaráttuna.

Þá er keppt til úrslita í 800 metra hlaupi karla og 5000 metra hlaupi kvenna. Í 800 metra hlaupinu mætir efsti maður á heimslista og ríkjandi Ólympíumeistarinn, Emmanuel Kipkurui Korir, til leiks en af þeim sem skráðir eru á hann samt sem áður versta tímann í ár. Það þarf þó ekki að þýða neitt þegar í taktískt úrslitahlaup er komið. Alsírmennirnir tveir Sedjati og Moula sem unnu sitthvorn undanúrslitariðilinn hafa einnig hlaupið vel, ásamt kanadamanninum Marco Arop.

Emmanuel Kipkurui Korir er ríkjandi Ólympíumeistari í 800 m og vann sinn undanúrslitariðil. En getur hann bætt heimsmeistaratitli í safnið?

Verði 5000 metra hlaupið ekki of taktískt gæti heimsmeistaramótsmetið vel fallið því þrjár af þeim sem hlaupa hafa í ár hlaupið undir metinu. Það eru heimsmetshafinn Letesenbet Giday, Dawit Seyaum og Gudaf Tsegay. Allar eru þær Eþíópískar. Þá má ekki afskrifa Ólympíumeistarann og Evrópumetshafann Sifan Hassan þó hún hafi ekki verið jafn áberandi í sumar eins og hún var í fyrra og hafnaði aðeins í fjórða sæti 10.000 metra hlaupsins fyrr í vikunni.

Bandaríkin og Jamaíka líklegust í boðhlaupunum

Dagskránni lýkur svo með úrslitahlaupum í 4×100 boðhlaupum. Í kvennahlaupinu má fastlega reikna með sigri Jamaíka og gætu þær jafnvel sett heimsmet, gangi allt upp. Á Ólympíuleikunum í fyrra hlupu þær á nýju landsmeti 41,02 sekúndum, 20 hundraðshlutum frá heimsmeti Bandaríkjanna frá 2012. Shelly-Ann Fraser-Pryce og Shericka Jackson eru í svipuðu formi og í fyrra en Elaine Thompson-Herah hefur ekki sýnt sama styrk svo erfitt er að segja hvort heimsmetið sé raunhæfur möguleiki. Líklegt er að Bandaríkjakonur og Bretar fylli upp í verðlaunapallinn.

Í karlahlaupinu eru það Bandaríkjamenn sem eru lang líklegastir enda unnu þeir þrefaldan sigur í 100 metra hlaupinu, rétt eins og Jamaíka gerði kvennamegin. Spurning er um heilsu Fred Kerley, heimsmeistara í 100 metra hlaupi, sem kláraði varla undanúrslit 200 metra hlaupsins, að eigin sögn vegna þess að hann var við það að fá krampa í lærið. Ólympíumeistararnir frá Ítalíu komumst ekki áfram úr riðlakeppninni þrátt fyrir að þrír af fjórum úr Ólympíusveitinni hafi hlaupið, þ.e.a.s. allir nema Lamont Marcell Jacobs. Skiptingar Bandaríkjamanna í undanriðlunum voru þokkalega öruggar en hvort þeir geti endurtekið það í úrslitunum á eftir að koma í ljós. Það væri þá ekki í fyrsta skipti sem þeir klúðra skiptingum.