HM í Eugene: Upphitun fyrir tugþraut karla

Tuttugu og þrjú fullvaxta karldýr mæta til leiks í tugþraut karla á HM í Eugene. Keppni hefst laugardaginn 23. júlí á 100 metra hlaupi. Kapparnir fara því næst í lanstökk, kúluvarp, hástökk og enda svo fyrri daginn á 400 metra hlaupi. Þá þarf að skokka niður og ná úr sér mjólkursýrunni, borða og sofa.

Daginn eftir eru allir þreyttir og stýfir. Sumir hrikalega peppaðir eftir frábæran fyrri dag, aðrir peppaðir að gera betur á degi tvö eftir erfiðan fyrri dag. Skiptir engu máli, það eru allir peppaðir! Seinni dagurinn hefst á 110 metra grindarhlaupi, næst er það kringlukast, stangarstökk, spjótkast og að lokum er uppáhalds grein allra, 1500 metra hlaup.

Eftir þessar tíu greinar er heimsmeistari krýndur, sá sem að er með flest stig eftir þessar tíu greinar.

Pallurinn frá Doha mætir til leiks

Allir þeir sem unnu til verðlauna á HM fyrir þremur árum í Doha mæta til leiks. Ríkjandi Heimsmeistari Niklas Kaul frá Þýskalandi, Maicel Uibo frá Eistlandi og Kandamaðurinn Damian Warner sem er ríkjandi Ólympíumeistari.

Á þessum þremur árum hafa þessir kappar upplifað ólíka tíma. Kaul sem varð óvænt heimsmeistari í Doha með því að kasta spjótinu tæpa 80 metra þurfti að fara í aðgerð á olnboga en náði góðri þraut í Götzis í Maí þar sem hann náði lágmarki fyrir EM í Munich (8303 stig).

Uibo hefur átt erfið ár líka en hann er til alls líklegur í Eugene. Damian Warner hefur átt frábær ár eftir Doha og varð Ólympíu meistari í fyrra og skoraði yfir 9000 stig sama ár í Götzis. Warner verður að teljast vera sá sem þarf að sigra í þessari þraut.

Heimamenn, en ekki sá besti

Kyle Garland, Zachery Ziemek og Steven Bastien (ekki bæjarfógeti) keppa fyrir Bandaríkin á þessu móti. Það verður súrt að Garret Scantling verði ekki með á þessu móti en hann á besta árangur ársins í heiminum í tugþraut, 8867 stig. Scantling fékk bann fyrir að láta lyfjaeftirlitið hvar hann var. Súrt. Gleymdi því reyndar þrisvar sem er klaufaskapur hjá honum.

Garland bætti sig um 500 stig í þraut á Bandaríska meistaramótinu þegar að hann skoraði 8720 stig. Ziemek er þrautreyndur kappi (góður) og frábær stökkvari getur vel blandað sér í baráttu í efri hlutanum. Bastien átti gott ár í fyrra en fékk óvænt sæti á þessu móti og kemur nokkuð pressulaus inn í það.

Heimsmeismethafinn mætir

Frakkinn Kevin Mayer mætir til leiks. Mayer hefur ekki keppt í tugþraut í ár en skoraði 8726 stig í fyrra. Það verður gaman að sjá hver staðan er á Mayer en hann er líklegur í Eugene.

Sterkir Ástralar

Ashley Moloney, Cedric Dubler og Daniel Golubovic mæta til leiks frá Ástralíu. Moloney skaut sér fram á sjónarsviðið með frábærri þraut á Ólympíuleikunum í fyrra þar sem að hann fékk brons. Moloney er bara 22 ára og býr yfir miklum hæfileikum. Hann er frábær íþróttamaður og fær um að skila góðum tölum, ef hann nær að tengja saman aðra eins þraut og í Tokyo er hann líklegur á pall.

Dubler og Golubovic hafa báðir skorað 8300 stig og verða sterkir.

Þrautseigir Þjóðverjar

Ásamt Niklas Kaul þá keppa þeir Kai Kazmirek, Tim Nowak og Leo Neugebauer fyrir hönd Þýskalands. Kazmirek er þeirra reyndastur gæti náð á meðal efstu fimm manna.

Þrautarkóngurinn frá Púertó Ríkó

Ayden Owens – Delerme frá Púertó Ríkó bætti sig fyrr á árinu þegar að hann varð bandarískur háskólameistari með 8528 stig. Owens er samt búinn að eiga langt tímabil og vonandi á hann eftir á tankinum fyrir HM.

Fulltrúar Norðurlandanna

Sander Skotheim frá Noregi og Marcus Nilson frá Svíþjóð halda uppi heiðri Norðurlandanna. Skotheim er yngstur þeirra sem taka þátt, fæddur 2002. Nilson er ellefu árum eldri og þaulreyndur í faginu.

Hvað gerist?

Það eru margir sem búast við harðri baráttu á milli Warner og Mayer. Þeir verða sterkir og en þar er Mayer meira spurningarmerki þar sem að hann er ekki búinn að taka þraut síðan í Tokyo. Warner er frábær á fyrri degi og á besta fyrri dag í sögunni í tugþraut, 4743 stig. Það sem ætti gefa góða sýn á stöðu þeirra innbyrðis er hvar þeir standa eftir hástökkið, grein sem báðir íþróttmenn vilja stökkva yfir 2 metra en ekki besta grein þeirra. Mayer er hins vegar jafn góður á báðum dögum og skoraði hann jafn mikið á báðum dögum þegar að hann setti heimsmetið sitt, 9126 stig. Mayer er frábær stangastökkvari á meðan að Warner er ekki eins sterkur og Mayer þar. Hver hæð í stangarstökki er tæp þrjátíu stig og verður það greinin sem Mayer minnkar muninn á Warner eða fjarlægist hann.

Á eftir Mayer og Warner er her manna sem getur skorað yfir 8500 stig. Moloney frá Ástralíu, Lindon Victor frá Grenada, Pierce Lepage frá Kanada, Kai Kazmirek frá Þýskalandi og Eistinn Uibo geta allir blandað sér í baráttu um verðlaun. Victor er með mikla reynslu á stórmótum og er frábær kastari.

Eistarnir Janek Oiglane og Johannes Erm eru að komast á ról eftir meiðsl og gætu gert stig gildandi.

En hvað gerist í alvörunni?

Silfrið spáir svipuðum palli og í Tokyo. Warner verður heimsmeistari, Moloney tekur silfur og Mayer brons. Óvænt í fjórða sæti verður Ziemek eftir harða baráttu um verðlaun. En það er langur vegur að gullinu og margt sem getur farið vel og illa.

Hér er hægt að kafa dýpra í þrautina og fylgjast með gangi mála á ítarlegan hátt. Njótið!