Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram á nýja ÍR-vellinum í Mjóddinni um helgina. Fyrri degi mótsins er lokið og náðist góður árangur í mörgum greinum en tvö mótsmet voru slegin.
ÍR-ingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir sló mótsmetið í 400m grindahlaupi stúlkna 20-22 ára þegar hún hljóp á tímanum 63,45s. Hún bætti þar með ellefu ára gamalt mótsmet Fjólu Signýjar Hannesdóttur (64,53s). Ingibjörg hefur hlaupið hraðast á 62,79 í ár, það gerði hún á Meistaramóti Íslands þar sem hún varð Íslandsmeistari í kvennaflokki. Ingibjörg vann einnig 400m hlaupið (án grinda) í dag. Hún hljóp þar á 59,03s.
Liðsfélagi Ingibjargar, Íslandsmethafinn Elísabet Rut Rúnarsdóttir, setti mótsmet í sleggjukasti stúlkna 20-22 ára. Hún kastaði lengst 63,04m en Íslandsmet hennar frá því fyrr í ár er 65,35m. Elísabet kastaði alls fjórum sinnum yfir gamla mótsmetinu, sem Vigdís Jónsdóttir átti og var sett árið 2017 (58,61m).
Ármenningurinn Thomas Ari Arnarsson vann til fimm gullverðlauna og einna silfurverðlauna í dag. Hann vann 300m, 1500m, 300m grind, langstökk og spjótkast og varð síðan annar í 100m hlaupinu einungis tveimur hundraðshlutum á eftir Pétri Óla Ágústssyni sem vann gullið. Thomas keppir í flokki 15 ára pilta.
Akureyringurinn Birnir Vagn Finnsson vann fern gullverðlaun í flokki 18-19 ára pilta. Hann tók gullið í 400m grindahlaupi, langstökki, sleggjukasti og spjótkasti. Hann bætti sig í 400m grind (70,46s) og í sleggjukasti (19,36m). Hann vann einnig silfur í 100m hlaupi á eftir Anthony Vilhjálmi Vilhjálmssyni úr Ármanni. Anthony vann hlaupið á 10,93s (+1,9) og er það í fyrsta sinn sem hann brýtur 11 sekúndna múrinn. Anthony vann einnig í 400m hlaupið. Sigurtími hans þar var 50,90s sem er persónulegt met utanhúss en hann á best 50,70s innanhúss.
Blikarnir Markús Brigisson og Júlía Kristín Jóhannesdóttir unnu þrjú gullverðlaun hvort á þessum fyrri degi. Markús tók gull í 100m hlaupi, stangarstökki og langstökki 16-17 ára pilta en Júlía í 100m hlaupi, langstökki og spjótkasti 16-17 ára stúlkna.
HSK/Selfoss leiðir heildarstigakeppnina með 178 stig. Þar á eftir koma heimamenn með 138 stig og Breiðablik með 131 stig. Öll úrslit mótsins má sjá hér. Mótið heldur áfram á morgun og þá mun m.a. Íslandsmethafinn í kúluvarpi kvenna, Erna Sóley Gunnarsdóttir, keppa.