HM í Eugene: Hlaðborð úrslita á lokadeginum – Fellur annað heimsmet?

Veislan í Eugene er nú brátt á enda. Síðasta keppnisdagurinn verður í nótt á íslenskum tíma og þar verður boðið upp á hlaðborð úrslita. Keppt verður til úrslita í sjö greinum auk þess sem þrautarkóngur veislunnar verður krýndur þegar keppni í tugþraut lýkur með 1500m hlaupinu. Til gamans má geta að 1500m hlaupið verður síðasta greinin fyrir boðhlaupin og er það gert til að heiðra fyrrum heimsmethafann Ashton Eaton sem keppti fyrir Oregonháskóla á háskólaárum sínum.

Ísak Óli var búinn að gera þrautarkeppninni góð skil hér. Sá leiðinlegi atburður geriðst hins vegar í síðustu grein á fyrri degi, 400 metra hlaupinu, þegar Ólympíumeistarinn Damian Warner tognaði og hefur hann því hætt kepnni. Landi Warner, Pierce LePage, er í forystu þegar þremur greinum er enn ólokið.

Fellur annað heimsmet?

Úrslit í stangarstökki eru á dagskrá. Þar mætir heimsmethafinn og Ólympíumeistarinn Mondo Duplantis en heimsmetið er alltaf í hættu þegar hann mætir á atrennubrautina (reyndar einungis þegar ráin er í heimsmetshæð en þið fattið hvað ég meina). Duplantis hefur stokkið hæst 6,16m í ár og er það lengsta stökk sögunnar utanhúss. Það er þó ekki heimsmetið í greininni því hann hefur stokkið hærra innanhúss, 6,20m. Nú er hætt að tala um heimsmet innanhúss og heimsmet utanhúss og einungis hæsta stökk, hvort sem er inni eða úti, telst heimsmet. Duplantis þarf því að stökkva 6,21m ætli hann sér að setja nýtt heimsmet. Heimsmeistaratitill utanhúss er það eina sem Duplantis vantar á ferilskrána en allar líkur eru á því að það muni breytast í nótt.

Verður Mu heimsmeistari?

800 metra hlaup kvenna verður spennandi. Þar er Ólympíumeistarinn og heimakonan Athing Mu mjög líkleg til afreka en Mary Moraa frá Keníu og Keely Hodgkinson frá Bretlandi eru það líka. Heimakonurnar Ajee Wilson og Raevyn Rodgers geta líka blandað sér í baráttuna um verðlaun.

Fullkomnar Cheptegei tvennuna?

Heimsmeistarinn í 10.000m, Joshua Cheptegei, getur bætt öðru gulli í safnið í 5.000m hlaupinu. Norðmaðurinn Jakob Ingebrigsten vill örugglega bæta upp fyrir silfrið í 1500m með gulli í 5.000m og verður afar spennandi að sjá hvað hann gerir á móti Cheptegei. Selemon Barega, Grant Fisher, Yomif Kejelcha og Mo Ahmed gætu allir blandað sér í baráttuna um verðlaun og síðan er ekki hægt að útiloka manninn sem hefur unnið þessa greina á síðustu tveimur heimsmeistaramótum, Muktar Edris.

Búist við hröðum grindahlaupum

Einnig verður keppt í undanúrslitum og úrslitum 100m grindahlaups kvenna þar sem búast má við afar góðum tímum frá þeim Kendru Harrison, Tobi Amusan, Britany Anderson og Jasmine Camacho-Quinn. Titilvörn ríkjandi heimsmeistara, Niu Ali, endaði strax í undanriðlunum í gær þegar hún rakst á níundu grind og datt illa.

Langstökkið verður spennandi

Úrslit í langstökki kvenna verða spennandi en þrjár hafa farið yfir sjö metrana í ár, Ástralinn Brooke Buschkuehl (7,13m), ríkjandi heims- og Ólympíumeistarinn Malaika Mihambo frá Þýskalandi (7,09m) og Ivana Vuleta sem á tvenn bronsverðlaun frá HM (7,06m).

Fær Felix tuttugustu verðlaunin?

Auk þessa alls verður keppt í úrslitum 4x400m boðhlaupa karla og kvenna líkt og ávallt á síðasta degi stórmóta. Áhugavert verður að sjá hvort Allyson Felix fái annan svanasöng á hlaupabrautinni en hún átti óvænta endurkomu á brautina í undanúrslitum boðhlaupsins. Hún var búin að hlaupa sinn síðasta hring á brautinni, héldu hún og allir aðrir, á fyrsta degi mótins þegar hún vann brons með blönduðu bandarísku boðhlaupssveitinni. Hún var hins vegar kölluð aftur inn til að koma bandarísku sveitinni í úrslitin. Felix, sem var búin að fljúga heim til LA, var að borða kjúklingavængi og drekka rótarbjór þegar hún fékk símhringinguna en þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um og hoppaði beint upp í næstu vél til Eugene. Hún átti besta splitt bandarísku kvennanna í undanúrslitunum og gæti því allt eins fengið að taka einn sprett til viðbótar í úrslitunum. Komist bandaríska sveitin á pall mun Felix fá verðlaun hvort sem hún hleypur úrslitahlaupið eður ei. Það er því góður möguleiki á að hún vinni sín tuttugustu verðlaun á heimsmeistaramóti en þau nítjándu komu í blandaða boðhlaupinu eins og við fjölluðum um á Silfrinu eftir fyrsta daginn á HM.