Í nótt fór fam níundi og jafnframt næstsíðasti dagur HM í Eugene í Oregonfylki Bandaríkjanna. 4x100m boðhlaupin voru þar síðust á dagskrá. Þau eru alltaf spennandi enda mikið sem getur farið úrskeiðis og ekki endilega þær sveitir sem eiga hröðustu hlauparanna sem koma fyrstar í mark. Skiptingar sveitanna spila þar auðvitað stóra rullu.
Fyrirfram var búist við sigri heimamanna í karlahlaupinu og Jamaíkukvenna í kvennahlaupinu enda sópuðu þjóðirnar til sín öllum verðlaunum í 100m hlaupunum. Auk þess unnu Bandaríkjamenn þrefalt í 200m hlaupi karla og Jamaíka tvöfalt kvennamegin. Það fór hins vegar svo að báðar þessar sveitir fengu silfur í boðhlaupinu.
Þrátt fyrir stjörnum prýdda sveit heimamanna voru það Kanadamenn sem komu fyrstir í mark á tímanum 37,48s, sjö hundraðslutum á undan Bandaríkjunum. Heimamenn voru í forystu eftir fyrstu þrjá sprettina. Þeir, Christian Coleman, Noah Lyles og Elijah Hall, splittuðu á 10,35s, 8,94s og 9,31s, í þessari röð. Fyrstu þrír hlauparar Kanada, þeir Aaron Brown, Jerome Blake og Brendon Rodney splittuðu á 10,45s, 8,86s og 9,38s. Þriðja skipting Bandaríkjanna var hins vegar mjög tæp og þurfti Marvin Bracey að hægja aðeins á sér á meðan skipting Kanadamanna gekk smurt fyrir sig. Andre de Grasse, sem dró sig úr keppni í 200m þar sem hann var enn að jafna sig eftir Covid smit, átti frábæran sprett fyrir Kanada og kom gullinu í hús. Hann splittaði á 8,79s en Bracey á 8,95. Bretar nældu síðan í brons á tímanum 37,83s. Hraðasta splittið í gær átti Brasilíumaðurinn Erik Cardoso, 8,77s. Hafa ber þó í huga að skiptingarnar hafa mikið að segja um splitt hlauparanna.
Fred Kerley, heimsmeistarinn í 100m, var ekki í sveit Bandaríkjanna en hann fékk krampa í undanúrslitum 200m hlaupsins og hefur ekki verið búinn að ná sér. Silfur- og bronsverðlaunahafarnar í 200m, Kenneth Bednarek og Erryion Knighton, og bronsverðlaunahafinn í 100m, Treyvon Bromell, komust ekki í sveit Bandaríkjanna. Þvílík breidd!
Í kvennahlaupinu skákuðu Bandaríkjakonur þeim jamaísku og komu fyrstar í mark á tímanum 41,14s. Jamíka var þar aðeins fjórum hundraðshlutum á eftir. Þetta eru fimmtu og sjöttu bestu tímar sögunnar. Engin þeirra kvenna sem voru í bandarísku sveitinni vann til gullverðlauna í einstaklingsgrein á mótinu en þær sem voru í þeirri jamaísku unnu samtals fimm. Melissa Jefferson byrjaði hraðast fyrir heimakonur, hún splittaði á 11,35s en Kemba Nelson á 11,45 fyrir Jamaíku. Abby Steiner átti síðan frábæran sprett fyrir heimakonur þegar hún splittaði á 9,86s en Elaine Thompson-Herah þurfti að hægja aðeins á sér í skiptingunni og splittaði á 10,10s fyrir Jamaíku. Shelly-Ann Fraser Pryce átti síðan góðan þriðja sprett fyrir Jamaíku, hún splitttaði á 9,97s en heimakonan Jenna Prandini á 10,05s. Síðasta skiptingin hjá heimakonum var síðan frábær og Twanisha Terry tók við keflinu með gott forskot á Shericku Jackson sem náði ekki Terry þrátt fyrir að hafa splittað á 9,66s. Terry splittaði á 9,88s og tryggði gullið fyrir heimakonur. Þýskaland var frekar óvænt þriðja sveitin í mark. Þær áttu frábærar skiptingar og komu í mark á tímanum 42,03s. Þetta var í fyrsta sinn síðan á heimavelli árið 2009 sem þær fá verðlaun í þessari grein. Hraðasta splittið í hlaupinu átti Darryl Neita á síðasta spretti fyrir Bretland, 9,57s. Þær enduðu í sjötta sætinu.