HM í Eugene: Pichardo, Peters, Tsegay og Korir krýnd meistarar

Næstsíðasta keppnisdegi Heimsmeistaramótsins í Eugene í Oregonfylki Bandaríkjanna lauk í nótt. Keppt var til úrslita í sex greinum og við förum hér yfir það helsta.

Tsegay bætti gulli við silfrið

5.000 metra hlaup kvenna var jafnt og spennandi. Sex hlaupakonur voru enn í baráttunni um gullið þegar um 100m lifðu hlaups. Silfurverðlaunahafinn frá 1500m hlaupinu, Gudaf Tsegay frá Eþíópíu, var sterkust á lokasprettinum og kom fyrst í mark á tímanum 14:46,29. Silfrið vann heimsmeistarinn U18, Beatrice Chebet frá Keníu, á tímanum 14:46,75. Landa Tsegay, Dawit Seyaum, var svo þriðja á 14:46,36. Heimsmethafinn í greininni og heimsmeistarinn í 10.000m hlaupinu, Letesenbet Gidey, varð að láta sér fimmta sætið að góðu og Ólympíumeistarinn, Sifan Hassan frá Hollandi, endaði sjötta.

Loksins gull hjá Pichardo

Portúgalinn Pablo Pichardo opnaði þrístökkskeppnina með glæsibrag þegar hann stökk 17,95m strax í fyrstu umferð. Það reyndist vera sigurstökkið í keppninni og Pichardo náði því að bæta heimsmeistaratitli við Ólympíugullið sem hann vann í Tókýó. Pichardo vann silfur á HM 2013 og 2015 og var sáttur með að vinna loks gullið. Hugues Fabrice Zango komst næst Pichardo þegar hann stökk 17,55m sem tryggði honum silfur. Kínverjinn Yaming Zhu vann brons með stökki upp á 17,31m.

Peters varði titilinn

Anderson Peters frá Grenada varði heimsmeistaratitil sinn í spjótkasti karla. Aðeins einn maður hafði gert það áður í karlaflokki, Ólympíumeistarinn Jan Zelezny. Ástralinn Kelsey-Lee Barber varð fyrsta konan til þess að gera það aðeins sólarhring áður en Peters varði sinn titil. Grenadamaðurinn náði þeim frábæra árangri að kasta þrisvar sinnum yfir 90 metra í keppninni. Lengsta kastið kom í sjöttu og síðustu umferð og mældist það 90,54m. Indverski Ólympíumeistarinn Neeraj Chopra vann silfur með kasti upp á 88,13m og silfurverðlaunahafinn frá Tókýó, Tékkinn Jakub Vadlejch, vann brons með 88,09m.

Ólympíumeistarinn varð heimsmeistari

Emmanuel Korir varð heimsmeistari í 800m hlaupi karla. Hann sigldi fram úr Kanadamanninum Marco Arop þegar um 50 metrar voru eftir af hlaupinu og kom fyrstur í mark á tímanum 1:43,71. Arop missti einnig Alsírmannin Djamel Sedjati fram úr sér á lokametrunum. Sedjati kom í mark á tímanum 1:44,14 sem tryggði honum silfur. Arop kom síðan í mark á tímanum 1:44,28 sem dugði í bronsið. Korir er fyrsti keníski heimsmeistarinn í greininni frá því að heimsmethafinn David Rudisha varð meistari í Peking 2015.

Einnig var keppt til úrslita í 4x100m boðhlaupum. Þar urðu óvæntir sigurvegarar en lesa má meira um það hér.