Eins og Silfrið hefur fjallað um voru tvö heimsmet slegin á síðasta degi heimsmeistaramótsins. Þar á meðal sló Tobi Amusan 6 ára gamalt met Kendru Harrison í 100 metra grindahlaupi. Það gerði hún í fyrsta undanúrslitariðlinum þegar hún kláraði hlaupið á 12,12 sekúndum og sló þar með met Harrison um 8 hundruðustu úr sekúndu. Amusan var ekki sú eina sem sló met af einhverju tagi í undanúrslitunum því fjórar aðrar konur settu landsmet og sjö í viðbót settu nýtt eða jöfnuðu sitt persónulega met. Sextán fljótustu konurnar í undanúrslitunum settu allar heimsmet, landsmet, persónulegt met eða ársbesta árangur. Í úrslitunum hljóp Amusan svo á tíma sem hefði dugað til annars heimsmets, 12,06 sekúndum en meðvindurinn var þá of mikill eða 2,5 m/s.
Michael Johnson trúir ekki að tímarnir séu réttir
Þetta metaregn í undanúrslitunum hefur vakið upp ýmsar spurningar og efasemdir um hvort tímarnir séu réttir. Mætti jafnvel ganga svo langt að segja að „netheimar logi“. Hefur Michael Johnson, fyrrverandi tvöfaldur heimsmetshafi og íþróttalýsir hjá BBC, lýst yfir efasemdum á twitter. Vitnaði hann þar í Cindy Sember sem setti breskt met í undanúrslitunum en hún sagði eftir hlaupið að henni hafi hún fundist hlaupa hægt. Tími hennar var 12,50 sekúndur, en fyrir átti hún 12,53 sekúndur frá því í fyrra. Vert er að taka fram að Johnson efast ekki aðeins um tíma Tobi Amusan, heldur allra keppendanna í undanúrslitunum og er þar með að gefa í skyn að tímatökubúnaðurinn hafi ekki virkað rétt. En er eitthvað hæft í því? Skoðum málið.
Það fyrsta sem manni dettur í hug að gera er að grandskoða upptökuna, og það er það sem ég gerði. Ég setti sjónvarpsupptökuna af heimsmetshlaupinu inn í myndbandsvinnsluforrit og stillti þannig að fyrsta sjáanlega hreyfing Tobi Amusan er á 0,00 sekúndna markinu. Á síðasta rammanum áður en Amusan er greinilega komin yfir marklínuna sýnir klukkan í forritinu 11,96 (námundað) og á fyrsta rammanum eftir að hún er komin yfir línuna sýnir klukkan 12,00. Ef við gefum okkur að hún hafi komið í mark einhvers staðar þar á milli hefur tíminn verið eitthvað um 11,98 sekúndur. Viðbragðstími Amusan var 0,144 sekúndur sem gæfi námundaðan heildartíma upp á 12,13 sekúndur, 0,01 sekúndu frá mældum tíma. Einhver skekkja fylgir myndbandsgreiningu sem þessari en að mínu mati er hún nær því að staðfesta tímann, frekar en að hrekja hann. Svipuð greining á hlaupi Cindy Sember „staðfestir“ hennar tíma.


En ef tímarnir eru réttir, af hverju segir Cindy Sember þá að henni hafi fundist hún hlaupa hægt? Það er að sjálfsögðu erfitt að segja en ég hef mínar hrútskýringar á reiðum höndum. Mögulega er það einfaldlega vegna þess að fólk hleypur hraðar þegar það er afslappað en afslöppun gefur á sama þá tilfinningu að maður hefði getað reynt meira á sig og þar af leiðandi þá tilfinningu að hlaupið hafi ekki verið mjög hratt. Önnur möguleg útskýring er að þegar hlauparinn við hliðina á þér, sem þú hafðir unnið einu sinni fyrr á árinu og tvisvar tapað mjög naumlega fyrir, er kominn tveimur skrefum á undan þér eftir 40 metra og heldur svo áfram að auka forskotið þá líður þér eins og þú hlaupir hægt, jafnvel þó þú hlaupir á þínum besta tíma.

Hvað varðar metaregnið hjá öðrum keppendum má útskýra það með hraðri braut, eins og sást í spretthlaupum mótsins, bættum skóbúnaði, og síðast en ekki síst mikilli samkeppni um sæti í úrslitahlaupi, sérstaklega eftir að keppendur í undanúrslitariðlum 2 og 3 sáu hvernig sá fyrsti fór. Einhverjir benda á hversu ólíklegt það er að sjá svona margar bætingar í undanúrslitum en áhugavert væri að gera tölfræðilega greiningu á því og setja raunverulega tölu á líkurnar en það er efni í aðra grein. Kannski kæmi þá eitthvað áhugavert í ljós.