HM í Eugene: McLaughlin með eitt besta splitt sögunnar og Felix fékk 20. verðlaunin

Keppni á heimsmeistaramótinu í Eugene í Oregonfylki Bandaríkjanna lauk í nótt með 4x400m boðhlaupum karla og kvenna. Bandaríkin hafa verið afar sigursæl í þessari grein í langan tíma og engin breyting varð þar á í nótt. Heimamenn unnu bæði hlaupin og fengu þar með tólftu og þrettándu gullverðlaun sín á mótinu. Þeim leið greinilega vel á heimavelli og unnu til samtals 33 verðlauna en engin þjóð hefur áður unnið svo mörg verðlaun á einu og sama heimsmeistaramótinu.

McLaughlin sýndi enn og aftur hvers hún er megnug

Bandaríkjakonur hafa í gegnum tíðina haft úr ótal 400 metra hlaupurum að velja þegar kemur að því að setja upp boðhlaupssveit í 4x400m. Nú er hins vegar staðan sú að þeirra bestu 400 metra hlauparar keppa ekki í greininni. Þeirra fremst er að sjálfsögðu heimsmethafinn í 400m grind, Sydney McLaughlin. Grindahlauparinn Dalilah Muhammad er einnig mjög sterkur 400m hlaupari ásamt 800m hlauparanum Athing Mu. Þá sýndi 100m og 200m hlauparinn Abby Steiner trekk í trekk á háskólamótunum í vor að hún er frábær 400m hlaupari. Það var því ekki auðvelt val sem liðsstjórar Bandaríkjanna áttu í höndum fyrir boðhlaupið.

Það fór svo að bandaríski meistarinn í 400m, Talitha Diggs, og bandaríski háskólameistarinn í 400m grind, Britton Wilson, fengu sæti í sveitinni auk þeirra McLaughlin og Steiner. Mu var nýbúin að vinna gull í 800m hlaupinu fyrir boðhlaupið og hefur því ákveðið að hlaupa ekki auk þess Muhammad hefur verið að glíma við meiðsli í sumar. Mikið var rætt um það hvort Allyson Felix fengi sæti í sveitinni og gæti hlaupið sitt síðasta hlaup á ferlinum – í þriðja sinn. Síðasta hlaup hennar átti að vera í blandaða boðhlaupinu á fyrsta degi mótsins en hún fékk óvænt kallið um að hlaupa undanúrslitahlaupið í 4x400m kvenna. Hún fékk þó ekki sæti í úrslitasveitinni.

Það kom engum á óvart að Bandaríkjakonur unnu boðhlaupið með yfirburðum eins og þær hafa gert svo oft áður. Þær leiddu hlaupið frá upphafi til enda. McLaughlin átti ótrúlegan lokasprett þó hún hafi ekki fengið neina keppni. Hún splittaði á 47,91s sem er eitt hraðasta splitt sögunnar. Undirritaður átti erfitt með að finna nógu góðar heimildir yfir hröðustu splitt sögunnar en þetta er að öllum líkindum það hraðasta sem kona hefur hlaupið í 4x400m boðhlaupi á heimsmeistaramóti síðan Allyson Felix hljóp á 47,72s í Peking 2015. Það er hraðasta splitt sem náðst hefur heimsmeistaramóti.

Bandaríska sveitin kom í mark á tímanum 3:17,79 um þremur sekúndum á undan næstu sveit sem var jamaísk. Bretar unnu brons um tveimur sekúndum þar á eftir. Allyson Felix fékk þar með sín tuttugustu verðlaun á stórmóti en öll sem hlaupa boðhlaupin, hvort sem það er í undanúrslitum eða úrslitum, fá verðlaun (þó einungis þau sem hlaupa úrslitin fái að mæta á pallinn). Þetta voru önnur gullverðlaun McLaughlin og Steiner á mótinu en Steiner var einnig í sigursveit Bandaríkjanna í 4x100m.

Líka lítil spenna í karlahlaupinu

Heimamenn höfðu einnig gífurlega yfirburði í karlahlaupinu. Þeir unnu á tímanum 2:56,17 en í sveitinni voru þeir Elija Godwin, Michael Norman, Bryce Deadmon og Champion Allison. Silfurverðlaunahafinn í grindahlaupinu, Rai Benjamin, ákvað að hlaupa ekki þar sem hann er enn að glíma við smávægilega meiðsli. Jamaíkumenn unnu silfur líkt og löndur þeirra en Belgar unnu brons. Japanir urðu fjórðu á nýju Asíumeti. Norman, sem varð heimsmeistari í 400m, átti hraðasta splittið í hlaupinu (43,64s).

Uppfært 26. júlí 2022

Upphaflega var greint frá því að splitt McLaughlin hafi verið það hraðasta sem kona hefur hlaupið í boðhlaupi síðan Olga Nazarova og nafna hennar Bryzgina frá Sovétríkjunum splittuðu á 47,82s og 47,80s þegar sovéska sveitin setti heimsmet í Seoul 1988. Allyson Felix hljóp hins vegar hraðar á HM 2015 (47,72s). Það hefur nú verið leiðrétt.