Lokadagur Heimsmeistaramótsins í Eugene í Oregonfylki Bandaríkjanna fór fram í nótt. Þar litur tvö heimsmet dagsins ljós, í stangarstökki karla og í 100 metra grindahlaupi kvenna.
Þessi lokahluti mótsins byrjaði með látum því strax í fyrsta hlaupinu, fyrsta undanúrslitariðli 100m grindahlaupsins, setti Tobi Amusan heimsmet. Hún hljóp á 12,12s (+0,9) og bætti þar með met Kendru Harrison frá Bandaríkjunum um átta hundraðshluta úr sekúndu. Frábær árangur hjá Amusan sem átti best 12,42s fyrir mótið. Harrison var í sama riðli og Amusan og endaði önnur á tímanum 12,27s. Aðstæður voru greinilega frábærar til grindahlaups en alls féllu fimm landsmet í undanúrslitunum.
Amusan hljóp síðan aftur langt undir heimsmetinu í úrslitahlaupinu þegar hún hljóp yfir grindurnar tíu á 12,06s. Því miður var meðvindur í hlaupinu of mikill til þess að það teljist gilt heimsmet, hann var 2,5 m/s en meðvindur yfir 2,0 m/s telst ólöglegur. Britany Anderson frá Jamaíku vann silfur á tímanum 12,23 og Jasmine Camacho-Quinn brons tveimur þúsundustu hlutum á eftir Anderson. Athygli vakti að engin Bandaríkjakona komst á pall en það gerðist síðast árið 2015. Alia Armstrong varð fjórða á 12,31s en Harrison datt í úrslitahlaupinu og náði ekki að klára. Áður hafði ríkjandi heimsmeistarinn Nia Ali og löndu hennar Alyshu Johnson báðum mistekist að komast upp úr undanrásunum.
Í viðtali eftir úrlistahlaupið sagðist Amusan ekki hafi búist við heimsmeti. ,,Ég hef mikla trúa á mér en ég átti ekki von á að setja heimsmet á þessu móti,” sagði Amusan. ,,Þetta er draumur að verða að veruleika. Ég vissi vel að ég gæti gert þetta á einhverjum tímapunkti en ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég sá tímann á skjánum eftir undandúrslitin.”
Duplantis setti einnig heimsmet
Svíinn Mondo Duplantis vann stangarstökkið örugglega eins og við var að búast. Það var einungis spurning um hversu hátt hann myndi stökkva. Sænski stökkvarinn tryggði sér heimsmeistaratitilinn með stökki yfir 6,00m í fyrstu tilraun en Bandaríkjamaðurinn Christopher Nilsen og Ernest John Obiena frá Filippseyjum felldu báðir þá hæð og fengu silfur og brons. Þeir stukku hæst 5,94m sem var Asíumet hjá Obiena. Því næst var ráin hækkuð í 6,06m sem var einum sentimetra yfir gildandi meistaramótsmeti Ástralans Dimitri Markov frá 2001. Duplantis lék sér að þeirri hæð í fyrstu tilraun og meistaramótsmetið orðið hans. Því næst bað hann um að ráin yrði hækkuð í 6,21m, einum sentimetra yfir hans eigin heimsmeti. Hann hætti við í fyrstu tilraun en hitti á það í annarri og var vel yfir ránni. Heimsmet staðreynd, það annað á deginum og þriðja á mótinu. Sannkallaðir Hayward töfrar á þessum lokadögum mótsins.
Þetta er í fimmta sinn sem Svíinn setur heimsmet en það var ekki eina metið sem hann sló í nótt. Þetta var nefnilega í 47 sinn sem hann stekkur yfir sex metra í keppni og hann bætti þar með met Sergei Bubka sem gerði það alls 46 sinnum á sínum ferli. Nú hefur Svíinn unnið allt sem hægt er að vinna en heimsmeistaratitill utanhúss var það eina sem hann átti eftir að afreka. Duplantis er einungis 22 ára og á hann því mörg ár eftir af ferlinum.
,,Ég hugsaði ekki mikið um metið í dag,” sagði Duplantis eftir keppnina. ,,Það er yfirleitt einhvers staðar bak við eyrað en í dag einbeitti ég mér að því að vinna. Ég vildi gullið svo heitt.” Hvað er næst fyrir Duplantis? ,,Ég veit það ekki. Núna ætla ég bara að taka smá frí með fjölskyldu og vinum.”