HM í Eugene: Mu sú yngsta í sögunni til að verða heims- og Ólympíumeistari

Bandaríkjakonan Athing Mu varð heimsmeistari í 800m hlaupi á lokadegi Heimsmeistaramótsins í Eugene. Þar með varð hún yngsta konan til að verða heims- og Ólympíumeistari í einstaklingsgrein en Mu varð tvítug þann 8. júní síðastliðinn. Bretinn Keely Hodgkinson, sem varð önnur á eftir Mu í Eugene sem og í Tókýó, er einnig tvítug. Sá yngsti til að afreka þetta var Grenadamaðurinn Kirani James sem varð heimsmeistari í 400m hlaupi í Daegu 2011 og síðan Ólympíumeistari í London 2012. Þá var James einnig á tuttugasta aldursári en hann á afmæli þann 1. September og var því örlítið yngri en Mu.

Mu og Hodgkinson háðu harða baráttu um gullið en Mu tók forystuna af Diribe Welteij frá Eþíópíu þegar um 300 metrar voru eftir. Hodgkinson fylgdi henni fast á eftir og þegar um 100 metrar voru eftir virtist Hodgkinson ætla að fara fram úr Mu innan á. Mu hefur ekki tapað hlaupi utanhúss frá því í september 2019 og ætlaði ekki að láta það breytast nú. Hún var sterkari en Hodgkinson á síðustu metrunum og kom í mark á tímanum 1:56,38 aðeins átta hundraðshlutum á undan Bretanum. Mary Moraa frá Keníu varð þriðja á 1:56,71 sem er persónulegt met.

Ingebrigsten bætti upp fyrir silfrið

Norðmaðurinn Jakob Ingebrigsten var mættur til leiks í 5000 metra hlaup karla og var staðráðinn í að bæta upp fyrir 1500m hlaupið þar sem hann vann silfur. Úgandamaðurinn Joshua Cheptegei, sem er heimsmethafinn í greininni, var að reyna við tvennuna en hann hafði unnið 10000 metra hlaupið fyrr á mótinu. Cheptegei leiddi hlaupið fyrstu þrjá hringina en færðist aftur í miðjan pakkann eftir það. Þegar um 600 metrar voru eftir af hlaupinu fór Ingebrigsten í forystuna. Hann leit aldrei til baka eftir það og kom fyrstur í mark á tímanum 13:09,24. Þetta er fyrsti heimsmeistaratitill Ingebrigstens. Jacob Krop varð annar á 13:09,98 og Oscar Chelimo þriðji á 13:10,20. Cheptegei endaði níundi á 13:13,12.

Mihambo varði titilinn

Þjóðverjinn Malaika Mihambo varði titil sinn í langstökki kvenna með stökki upp á 7,12m. Ese Brume frá Nígeríu vann silfur með stökki upp á 7,02m. Brume, sem vann bronsverðlaun á síðasta heimsmeistaramóti sem og á Ólympíuleikunum í fyrra, sá löndu sína og bestu vinkonu, Tobi Amusan, setja heimsmet í 100m grindahlaupi í miðri langstökkskeppninni. Það hefur kveikt í henni enda náði hún í kjölfarið sínum besta árangri á stórmóti. Góður dagur fyrir vinkonurnar. Leteticia Oro Melo frá Brasilíu vann brons með stökki upp á 6,89m sem var bæting hjá henni um heila 25 sentimetra. Ástralinn Brooke Buschkuehl, sem var búin að stökkva lengst allra í ár (7,13m) varð að sætta sig við fimmta sætið en hún stökk lengst 6,87m. Langstökkskeppnin var afar jöfn en aðeins skildu sjö sentimetrar að þriðja sætið og það áttunda.

Mayer endurheimti titilinn

Frakkinn Kevin Mayer endurheimti heimsmeistaratitilinn í tugþrautinni þegar hann safnaði samtals 8816 stigum í greinunum tíu, 15 fleiri en næsti maður. Heimsmethafinn varð heimsmeistari í London 2017 en varð að draga sig úr keppni í Dóha vegna meiðsla. Mayer, sem var í sjötta sæti eftir fyrri daginn, lagði grunninn að sigrinum í stangarstökkinu (5,40m) og spjótkastinu (70,31m). Kanadamaðurinn Pierce Lepage varð annar með 8701 stig og heimamaðurinn Zachery Ziemek þriðji með 8676 stig. Ólympíumeistarinn Damien Warner frá Kanada leiddi þrautina fyrir 400 metra hlaupið á fyrri degi en tognaði hins vegar í hlaupinu og varð að hætta keppni.

Tvö heimsmet voru sett á þessum lokadegi heimsmeistaramótsins eins og lesa má um hér.