Hin hliðin: Hilmar Örn Jónsson (FH)

Hin hliðin” er nýr dagskrárliður á Silfrinu en í þessum lið fáum við að kynnast fremsta frjálsíþróttafólki landsins.

Fyrsti viðmælandinn er enginn annar en Íslandsmethafinn í sleggjukasti – Hilmar Örn Jónsson. Hilmar ætti að vera orðinn áhugafólki um frjálsíþróttir vel kunnugur enda hefur hann verið í fremstu röð íslenskra kastara í mörg ár. Hilmar hefur keppt á ýmsum stórmótum á erlendum vettvangi og þá síðast á HM í Eu­gene fyrr í mánuðinum.

Þessi öflugi FH-ingur er líklega þekktastur fyrir að eiga Íslandsmetið í sleggjukasti karla en undirrituð veltir því fyrir sér hvort hann eigi líka Íslandsmetið í virkum Íslandsmetum. Hilmar á hvorki meira né minna en 31 virk Íslandsmet – geri aðrir betur!

Fullt nafn: Hilmar Örn Jónsson

Gælunafn: Hammer Johnson

Aldur: 26 ára

Uppáhalds matsölustaður: Just Wingin It

Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Diners, Drive-ins, and Dives.

Uppáhalds tónlistarmaður: The Clash

Uppáhalds hlaðvarp: Tvíhöfði

Hver var fyrirmyndin þín í­ æsku: Í æsku horfði ég mikið upp til pabba og Óðins og Begga sem voru að gera það gott í FH á þeim tíma.

Sætasti sigurinn: Þegar ég bætti Íslandsmetið í fyrsta skipti á heimavelli í Virginia.

Mestu vonbrigðin: Fleiri en ég get talið, en það var sárt að gera langt kast ógilt á HM í Oregon.

Á hvaða velli er best að keppa á: Halle í Þýskalandi

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur á æfingu/í keppni: Einu sinni var Blanka Vlasic að æfa í Virginia, ég kynntist henni aðeins og hún sendi mér myndband þar sem hún skammaði mig fyrir að vera ekki nógu duglegur að gera smáæfingar.

Ertu með einhverja hjátrú: Nei, ég passa mig sérstaklega á því að halda mig frá slíku.

Fyrir utan frjálsar íþróttir, fylgist þú með öðrum íþróttum: Ég fylgist með Formúlu eitt þegar ég hef tækifæri til, sama með snooker og pílu.

Hvað er leiðinlegast að gera á æfingum: Rehab, pre-hab, og core æfingar er það allra leiðinlegasta.

Hvaða þrjá kastara tækir þú með þér á eyðieyju og af hverju: Kristínu Karlsdóttur vegna þess að hún er kærastan mín, Guðna Val vegna þess að hann var einu sinni í björgunarsveit, og Valerie Adams til að passa upp á okkur öll.

Sturluð staðreynd um sjálfan þig: Ég er með bachelor gráðu í kynjafræði.