HM í Eugene: Sjö skemmtileg atvik sem þú gætir hafa misst af

Nú er búið að slökkva ljósin á Hayward Field, sópa upp konfettíið af brautinni og heimsins bestu íþróttamenn eru haldnir heim á leið. HM í Eugene var stanslaust tíu daga partí en eins og með öll góð partí þá var ómögulegt að fylgjast með öllu því sem gerðist.

Ef þú hefur misst af einhverju í partíinu í Eugene var það þó líklega ekki vegna þess að þú lentir á trúnó með gömlum vini eða þurftir að bíða alltof lengi í röðinni á klósettið. Það er líklegast vegna þess að þú varst sofandi enda fóru allir kvöldhlutar keppninnar fram um nótt á okkar tíma.

Og þó áhugafólk um frjálsar íþróttir sé yfirleitt mikil partídýr, þá erum við líka upp til hópa afar skynsamt fólk og vitum hvað svefninn er mikilvægur. Það dæmir því enginn þau sem forgangsröðuðu svefninum fram yfir HM-partíið. En engar áhyggjur, þið svefnpurkurnar þurfið ekki lengur að vera með fomo. Við á Silfrinu fylgdumst vel með mótinu og ætlum að fara hér yfir sjö skemmtileg atvik sem þið gætuð hafa misst af svo þið getið nú verið viðræðuhæf í næsta frjálsíþróttaprtíi.

1. Dos Santos átti dansgólfið

Brasilíumaðurinn Alison dos Santos varð heimsmeistari í 400m grindahlaupi þegar hann hljóp á þriðja besta tíma sögunnar. Árangur dos Santos vakti verðskuldaða athygli en dans- og sönghæfileikar hans vöktu ekki síður athygli. Stuttu eftir að dos Santos kom í mark í úrslitahlaupinu hitti hann TikTok stjörnuna Biro í stúkunni. Biro varð frægur á samfélagsmiðlinum eftir að hafa birt myndband af sér syngja lagið One Kiss með Calvin Harris og Dua Lipa á undanúrslitaleik ensku bikarkeppninnar í fótbolta þar sem Liverpool mætti Manchester City á Wembley. Biro endurtók að sjálfsögðu leikinn með dos Santos.

@birovr

Para todos os amigos brasileiros… Alison Dos Santos… 400m hurdles… World Champion!!!🥇🇧🇷🥇🇧🇷🥇🇧🇷Got recognised in the crowd and we started to celebrate together 🤣🤣🤣#onekiss #400h #AlisonDosSantos #champion #brasil #sport #travel #atheltics #Eugene2022 #worldchampionship #worldchampionship2022 #trackandfield #goodtime #goodvibes #positiveenergy

♬ original sound – Biro

Dos Santos er afar lífsglaður náungi og var duglegur að sýna danshæfileika sína við hvert tækifæri. Hann tók til að mynda nokkur dansspor með lukkudýri mótsins eins sjá má á myndbandinu hér að neðan.

2. Partíið breyttist í sundlaugapartí

Í öllum góðum partíum er það alltaf einn sem yfirpeppast. Í HM-partíinu var sá aðili Þjóðverjinn Lea Meyer. Hún stakk sér til sunds í fyrsta undanriðli 3000m hindrunarhlaups kvenna. Þjóðverjinn endaði áttunda í riðlinum og komst ekki áfram.

Kannski vildi Meyer bara kæla sig í hitanum í Eugene?
Mynd: Martin Rickett/PA.

3. Vann Jamaíka þrefalt í 200m kvenna eftir allt saman?

Jamaíka vann þrefalt í 100m hlaupi kvenna en einungis tvöfalt í 200m hlaupinu. Eða hvað? Löndurnar Shericka Jacskon og Shelly-Ann Fraser-Pryce unnu gull og silfur í 200m og Dina Asher-Smith, sem keppir fyrir Bretland, vann brons. Jackson og Fraser-Pryce ná afar vel saman og voru skemmtilegar á samfélagsmiðlum á mótinu. Eftir blaðamannafundinn í kjölfar 200m hlaupsins fór Fraser-Pryce í beina útsendingu á Instagram. Þar spurði hún Asher-Smith út í jamaískan uppruna sinn en báðir foreldrar Bretans eru jamaískir.

Eftir þetta reyndi jamaíska þjóðin að eigna sér Bretann. Þau vildu meina að Asher-Smith væri í rauninni jamaísk og þ.a.l. hefði Jamaíka unnið þrefalt í 200m líkt og í 100m.

4. Lukkudýrið vakti lukku

Goðsagnaveran Stórfótur (e. Bigfoot) var lukkudýr mótsins í ár. Hann gerði mjög gott mótt og vilja mörg ganga svo langt að segja að hann hafi verið maður mótsins. Stórfótur á eiginlega skilið sinn eigin topplista en við látum nægja að setja inn myndband af hápunktum hans frá mótinu.

En það var ekki bara gleði og gaman hjá Stórfæti í Eugene því einn daginn hvarf höfuð hans. Upp um málið komst þegar myndband fór í dreifingu á samfélagsmiðlum af ljósmyndara á mótinu með höfuð Stórfótar í heimapartíi nokkru. Ljósmyndarinn missti aðgangspassa sinn að mótinu í kjölfarið en fékk hann aftur þegar lögreglurannsókn leiddi það í ljós að unglingspiltur hafði stolið höfðinu en ekki ljósmyndarinn.

5. Lyles skoraði á ungan aðdáenda í skæri, blað, steinn

Noah Lyles varð heimsmeistari í 200m hlaupi og bætti landsmet Michaels Johnson í leiðinni. Eftir verðlaunaafhendinguna hitti hann fyrir ungan aðdáenda í stúkunni og skoraði á hann í skæri, blað, steinn. Lyles vann leikinn (hann spilaði blaði en drengurinn steini) en þrátt fyrir það dró Lyles upp einn af sínum gaddaskóm og gaf drengnum. Fyrir þetta hefur Lyles verið tilnefndur til háttvísisverðlauna mótsins ásamt sex öðrum íþróttamönnum.

6. Tökumaður gleymdi sér í gleðinni

Óvenjulegt atvik átti sér stað í úrslitum 3000m hindrunarhlaups karla. Tökumaður, sem var að taka upp keppnina í þrístökki kvenna, gleymdi sér aðeins í gleðinni og þvældist fyrir hlaupurunum á brautinni. Þetta virtist þó sem betur fer ekki hafa teljandi áhrif á hlauparana og þeir héldu áfram eins og ekkert hafi í skorist. Marokkómaðurinn Soufiane El Bakkali endaði á að vinna hlaupið.

7. Lýsti hlaupi sonarins

Jake Wightman vann óvænt gull í 1500m hlaupi karla. Faðir hans, Geoff Wightman, var vallarþulur á Hayward Field og lýsti ótrúlegu hlaupi sonar síns fyrir áhorfendunum í stúkunni. Einstök stund fyrir feðgana.

Geoff fékk einnig að kynna son sinn sem heimsmeistara í verðlaunaafhendingunni eftir hlaupið.