Frá Eugene til Birmingham – Samveldisleikarnir hefjast í dag

Ef þú hélst að eftir allan hamaganginn í Eugene fengir þú, lesandi góður, hlé frá stórmótum fram að EM, hefur þú svo sannarlega haft rangt fyrir þér því veisluhöldin eru rétt að byrja. Í dag, föstudaginn 29. júlí, hefst nefnilega keppni á Samveldisleikunum sem haldnir eru í Birmingham á Englandi. Framundan er 11 daga íþróttahátíð þar sem er keppt er í 24 íþróttagreinum og verða samtals veitt verðlaun fyrir 280 mismunandi greinar.

Síðan ég var lítill hef ég heyrt Sigurbjörn Árna Arngrímsson segja mér að hinir og þessir keppendur eigi svo og svo mörg verðlaun frá Samveldisleikum en ég velti því lítið fyrir mér hvað þessir samveldisleikar í raun og veru eru. Í tilefni Samveldisleikanna í sumar ákvað ég að kominn væri tími til að fræðast um þetta næststærsta alþjóðlega fjölgreina íþróttamót og leyfi ég ykkur að njóta góðs af því.

Sagan

Rætur Samveldisleikanna liggja ekki jafn djúpt aftur í fornöld eins og rætur Ólympíuleikanna en ná þó langt aftur á síðustu öld og jafnvel þá á undan, ef aðdragandinn er talinn með. Fyrstu leikarnir, sem þá hétu Bresku keisaraveldisleikarnir, voru haldnir í Hamilton í Kanada árið 1930. Leikarnir voru skipulagðir af íþróttafréttamanninum Bobby Robinson sem kom fullur innblásturs heim af Ólympíuleikunum í Amsterdam 1928, þangað sem hann fór sem liðstjóri frjálsíþróttaliðs Kanada. Hann vildi ólmur halda sambærilega leika fyrir breska heimsveldið og fór svo að hann var látinn skipuleggja fyrstu Bresku keisaraveldisleikana. Á þessu fyrstu leikum mættu 400 keppendur frá 11 þjóðum til leiks í sjö íþróttagreinum.

Síðan þá hafa leikarnir verið haldnir á fjögurra ára fresti, að undanskildum árunum 1942 og 1946. Nafninu hefur nokkrum sinnum verið breytt, fyrst í Bresku keisara- og samveldisleikana, þá í Bresku samveldisleikana og loks árið 1978 í Samveldisleikana.

Hverjir taka þátt?

Eins og gefur að skilja fá aðeins borgarar aðildarríkja Breska samveldisins að taka þátt. Alls eru aðildarríkin 56 talsins, sem flest eiga það sameiginlegt að hafa á einum eða öðrum tímapunkti verið undir breskum yfirráðum og tilheyrt breska keisaraveldinu. Þjóðirnar sem senda keppendur til leiks eru þó nokkuð fleiri, eða 72, þar sem mörg sjálfstæð svæði keppa undir eigin fána, auk þess sem þjóðirnar fjórar sem saman mynda Bretland keppa hver undir sínum fána. Meðal aðildarríkja eru Indland, Ástralía, Kanada, fjöldi ríkja í suður- og austur Afríku auk eyríkja í Karíbahafi.

Í hverju er keppt?

Eins og áður sagði verður á leikunum í ár keppt í 24 íþróttagreinum. Ekki verður farið í upptalningu á þeim hér en lang flestar greinarnar eiga það sameiginlegt að einnig er keppt á þeim á Ólympíuleikunum. Krikket, netabolti (e. netball) og skvass eru meðal greina sem keppt er í á Samveldis- en ekki Ólympíuleikunum en þessar greinar eiga sér allar langa hefð í Englandi og öðrum Samveldisríkjum. Aðalkeppnisgreinin er þó að sjálfsögðu frjálsar íþróttir.

Frjálsar í Birmingham 2022

Í hefðbundnu árferði eru Samveldisleikar haldnir þau ár sem hvorki eru Ólympíuleikar né heimsmeistaramót í frjálsum íþróttum svo leikarnir eru að öllu jöfnu stærsta alþjóðlega frjálsíþróttakeppnin það árið. Sökum COVID-19 er staðan nú hins vegar sú að heimsmeistaramótinu er varla lokið þegar keppendur þurfa að fara að hita upp fyrir Samveldisleikana. Það kemur þó ekki í veg fyrir að helstu stjörnur þátttökuþjóðanna láti sjá sig. Í 100 og 200 metra hlaupum kvenna eru til að mynda bæði Shericka Jackson og Elaine Thompson-Herah meðal keppenda. Í 100 metra grindahlaupi eru fjórar af þeim sem kepptu til úrslita á HM skráðar til leiks, þar á meðal Tobi Amusan, nýbakaður heimsmeistari og heimsmetshafi.

Jake Wightman er ekki hættur að hlaupa þó hann sé orðinn heimsmeistari

Karlameginn vantar ekki heldur stórlaxana. Jake Wightman, heimsmeistari í 1500 metra hlaupi, er skráður í bæði 800 m og 1500 m en keppir nú undir fána Skotlands í stað Bretlands. Í spjótkasti verður mikið um dýrðir því gull- og silfurverðlaunahafarnir frá HM, Anderson Peters og Neeraj Chopra, eru báðir væntanlegir. Þessi upptalning nær aðeins yfir brot af þeim stórstjörnum sem eru meðal þátttakenda en verður þó hér látið staðar numið. Lesendur eru hvattir til að fylgjast með á heimasíðu leikanna, en þar má finna bæði ráslista og úrslit. Frjálsíþróttakeppnin hefst á maraþoni á laugardagsmorguninn en keppni innan vallarins hefst svo þriðjudaginn 2. ágúst.