Ísold í fjórða sæti á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar

Í liðinni viku fór Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) fram í Banská Bystrica í Slóvakíu. Íslendingar áttu fjóra keppendur í frjálsíþróttakeppninni, þau Arnar Loga Brynjarsson (ÍR), Birnu Jónu Sverrisdóttur (Hetti), Heklu Magnúsdóttur (Ármanni) og Ísold Sævarsdóttur (FH).

Ísold náði bestum árangri fjórmenningana þegar hún lenti í fjórða sætinu í sjöþraut. Hún endaði með 5142 stig sem er bæting hjá henni um 270 stig frá því á Norðurlandamótinu fyrr í sumar. Þetta er jafnframt bæting á aldursflokkameti Örnu Stefaníu Guðmundsdóttir í sjöþraut með meyjaáhöldum um 113 stig.

Árangur Ísoldar í einstaka greinum var eftirfarandi:

  • 100m gr: 14,34s (PB)
  • Hástökk: 1,59m (PB úti)
  • Kúluvarp (3 kg): 11,42m
  • 200m: 25,93s (PB)
  • Langstökk: 5,35m
  • Spjótkast (500 gr): 32,14m
  • 800m: 2:15,43 (PB úti)

Arnar Logi keppti í 100 metra hlaupi. Hann hljóp á tímanum 11,28s (-1,2) í undanriðlinum og lenti í 15. sætinu. Besti tími Arnars í greininni er 11,27s frá því fyrr í sumar sem er jafnframt aldursflokkamet í flokki 15 ára pilta.

Birna Jóna hafnað í 13. sætinu í sleggjukasti (3 kg) með kasti upp á 47,22m. Besti árangur hennar í greininni er 51,65m.

Hekla keppti langstökki. Hún gerði því miður öll þrjú stökk sín í undankeppninni ógild og komst ekki áfram í úrslitin. Hún á best 5,53m (i) en stökkva þurfti 5,30m til að komast áfram í úrslitin.