Heimsmeistaramót 19 ára og yngri fer fram í Cali á Kólumbíu þessa dagana. Íslendingar eiga tvo keppendur á mótinu, þau Kristján Viggó Sigfinnsson úr Ármanni og Glódísi Eddu Þuríðardóttur úr KFA.
Kristján reið á vaðið og keppti í undankeppni hástökksins í dag. Ármenningurinn hefur hæst stokkið 2,20m í ár og er það 2.-4. besti árangur þeirra sem skráðir voru til keppni í hástökki á mótinu. Kristján kom inn í keppnina þegar ráin var í 2,08m. Hann felldi ránna því miður í öllum þremur tilraununum og komst því ekki áfram í úrslitin. Það dugði að stökkva 2,04m í fyrstu tilraun til að komast í úrslitin sem fara fram á föstudaginn.
Glódís mun keppa í undanriðlum 100m grindahlaups á fimmtudagsmorgun.