Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

HM U20: Tebogo sló eigið heimsmet

Heimsmeistaramót 19 ára og yngri fer fram í Cali í Kólumbíu þessa dagana. Í gærkvöldi fóru fram úrslit í 100m hlaupi pilta. Fyrirfram var Letsile Tebogo frá Botswana talinn sigurstranglegastur enda ríkjandi heimsmeistari í aldursflokknum auk þess sem hann setti heimsmet í aldursflokknum á Heimsmeistaramótinu í Eugene í síðasta mánuði þegar hann hljóp á 9,94s.

Tebogo vann hlaupið í gær nokkuð örugglega og varði því titil sinn. Hann kom í mark á tímanum 9,91s og bætti þannig eigið heimsmet um þrjá hundraðshluta úr sekúndu. Hann byrjaði að fagna sigrinum þegar um 20 metrar voru enn eftir af hlaupinu og hefði því líklega getað farið enn hraðar hefði hann hlaupið alveg í gegn. Frábær árangur hjá Botswanamanninum sem á sannarlega framtíðina fyrir sér.

Í öðru sæti í hlaupinu var Jamaíkumaðurinn Bouwahjgie Nkrumie á tímanum 10,02s sem er nýtt jamaískt met í flokki 19 ára yngri. Hann bætti þar með met Yohans Blake frá árinu 2007 um níu hundraðshluta úr sekúndu. Þessi tími skýtur Jamaíkumanninum upp í sjöunda sætið yfir hröðustu unglinga sögunnar. Þriðji var síðan Suður-Afríkumaðurinn Benjamin Richardson á tímanum 10,12s.

Exit mobile version