Samveldisleikarnir: McColgan lék eftir afrek móður sinnar

Skotinn Eilish McColgan vann í gær gull í 10.000m hlaupi á Samveldisleikunum sem fram fara í Birmingham á Englandi þessa dagana. Hún lék þar með eftir afrek móður sinnar, Liz McColgan, sem varð Samveldismeistari í sömu grein árin 1986 og 1990.

Hlaupið í gær byrjaði nokkuð rólega en þegar um þrír hringir voru búnir keyrði McColgan upp hraðann. Hægt og rólega týndist úr hópnum og þegar um 3.600 metrar voru eftir af hlaupinu voru einungis Skotinn og Kenýukonurnar Irene Chebet Cheptai og Sheila Chepkirui Kiprotich eftir í fremsta hópnum. Þá var bara spurning um hvernig medalíurnar myndu skiptast á milli þeirra þriggja. Kiprotich virtist meiðast í hlaupinu og missti hinar tvær fljótlega frá sér og þá voru bara tvær eftir í baráttunni um gullið. McColgan reyndist sterkari en Cheptai, sem var heimsmeistari í víðavangshlaupi árið 2017, á lokahringnum og kom tæpri sekúndu á undan henni í mark. Tími Skotans var 30:48,60 sem er bæting á 20 ára Samveldisleikameti Selinu Kosgei frá Keníu um næstum hálfa mínutu. Kiprotic kom síðan hálfhaltrandi í mark rúmum 20 sekúndum á eftir Skotanum en fékk bronsið .

Þetta er fyrsta gull McColgan á stórmóti en fyrir átti hún silfur í 5.000m frá Evrópumeistaramótinu í Berlín 2018. Hún hefur átt frábært tímabil til þessa. Hún sló Evrópumetið í 10km götuhlaupi í maí auk þess sem hún hefur bætt bresku metin í hálfu maraþoni og 5km hlaupi. Hún náði þó ekki alveg að sýna sitt rétta andlit á Heimsmeistaramótinu í Eugene í síðasta mánuði þar sem hún endaði í 10. sæti í 10.000m og 11. sæti í 5.000m. Í aðdraganda mótsins veiktist hún illa af Covid og glímdi við smávægileg meiðsli í kjölfarið sem héldu henni frá æfingum í sjö vikur. Hún virðist nú búin að ná sér á fullu eftir það.

Móðir McColgan, Liz, var frábær hlaupari á sínum tíma og varð meðal annars heimsmeistari í 10.000m hlaupi í Tókýó árið 1991 auk þess sem hún vann silfur í sömu grein á ÓL í Seoul 1988. Faðir hennar, Peter McColgan, var einnig góður hlaupari á sínum tíma en hann endaði til að mynda í sjöunda sæti í 3.000m hindrunarhlaupi á Samveldisleikunum í Edinborg 1986. Eilish hefur því fengið góð hlaupagen í vöggugjöf.