Ísraelinn Blessing Akawasi Afrifah varð í gær heimsmeistari 19 ára og yngri í 200 metra hlaupi. Hann kom í mark á tímanum 19,96s (-1,0) sem er bæting á Evrópumeti Ramils Guliyev í aldursflokknum frá árinu 2009. Afrifah kom í mark aðeins sex þúsundustu úr sekúndu á undan Letsile Tebogo frá Botswana. Tebogo mistókst því að vinna tvennuna en hann varð heimsmeistari í 100m hlaupi fyrr á mótinu á nýju heimsmeti 19 ára og yngri.
Timi þeirra beggja er bæting á mótsmetinu sem Tebogo setti í undanriðlunum (19,99s). Fyrir mótið átti Bandaríkjamaðurinn Michael Norman mótsmetið í greininni (20,17s) og hafði það staðið frá árinu 2016. Norman varð heimsmeistari í 400m hlaupi á HM í Eugene í síðsta mánuði. Heimsmetið í aldursflokknum á Bandaríkjamaðurinn Erriyon Knighton sem varð þriðji á HM í Eugene í 200m hlaupi. Hann ákvað þó að keppa ekki á HM U20.
Af öðrum úrslitum gærdagsins má nefna að Lythe Pillay frá Suður-Afríku vann 400m hlaup pilta á 45,28s og Bretinn Yemi Mary John vann 400m hlaup stúlkna á 51,50s. Grikkinn Ionnis Korakidis varð heimsmeistari í sleggjukasti pilta með 79,11m og Frakkinn Anthony Ammirati vann stangarstökk pilta með 5,75m. Faith Cherotich frá Keníu vann 3000m hindrunarhlaup stúlkna á tímanum 9:16,14 og Akala Garrett frá Bandaríkjunum vann 400m grindahlaup stúlkna á 56,16s. Þá varð Finninn Saga Vanninen heimsmeistari í sjöþraut stúlkna með 6084 stig.
HM U20 er ennþá í fullum gangi. Næstsíðasti dagur mótsins er í dag og hægt er að fylgjast með beinu streymi frá mótinu á Youtube-síðu Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins hér.