MÍ í fjölþrautum og 10.000m um helgina

Meistaramót Íslands í fjölþrautum og 10.000m hlaupi fer fram á Kópavogsvelli um helgina. Keppt verður í tugþraut í karlaflokki sem og í flokkum 18-19 ára og 16-17 ára pilta og í sjöþraut í kvennaflokki og í flokkum 18-19 ára og 16-17 ára stúlkna. Auk þess verður keppt í fimmtarþraut í flokkum stúlkna og pilta 15 ára og yngri. Þá verður keppt í 10.000m hlaupi karla og kvenna.

Í sjöþraut kvenna er FH-ingurinn María Rún Gunnlaugsdóttir skráð til keppni. Hún tók þátt á Norðurlandamótinu í fjölþrautum fyrr í sumar þar sem hún lenti í 6. sæti með 5160 stig. Best á hún 5562 stig frá árinu 2019. Meistari síðustu tveggja ára, Þórdís Eva Steinsdóttir, er ekki skráð til keppni að þessu sinni.

Í tugþraut karla eru fjórir skráðir til keppni, þeir Andri Fannar Gíslason (KFA), Dagur Fannar Einarsson (ÍR), Ægir Örn Kristjánsson (Breiðablik) og Reynir Zoëga (ÍR). Dagur Fannar á besta árangur þeirra – 6695 stig frá Norðurlandamótinu fyrr í sumar. Ríkjandi meistari, Ingi Rúnar Kristinsson, er ekki skráður til keppni að þessu sinni.

Í sjöþraut stúlkna 15-16 ára eru Ísold Sævarsdóttir (FH), Hekla Magnúsdóttir (Ármanni), Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) og Sara Kristín Lýðsdóttir (FH) skráðar til keppni. Ísold lenti í fjórða sæti í sjöþraut á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í síðasta mánuði og setti þá aldursflokkamet (5142 sitg). Hekla keppti einnig í langstökki á mótinu en gerði því miður öll stökk sín ógild. Hún bætti sig þó í greininni á Nike móti FH í gær og er því greinilega í góðu formi. Júlía Kristín keppti í 100m grindahlaupi á Evrópumeistaramóti 17 ára og yngri í síðasta móti og lenti þar í 30. sæti. Hún vann til sex gullverðlauna á MÍ 15-22 ára í síðasta mánuði og er því til alls líkleg um helgina.

Akureyringurinn Birgir Vagn Finnsson, sem vann til sjö gullverðlauna á MÍ 15-22 ára, er skráður til keppni í tugþraut 18-19 ára pilta. Blikinn Markús Birgisson, sem vann til sex gullverðlauna á MÍ 15-22 ára, er skráður til keppni í tugþraut 16-17 ára pilta. Áhugavert verður að sjá hvernig þeim mun ganga um helgina.

Í fimmtarþraut stúlkna 15 ára og yngri eru þær Bjarney Hermannsdóttir (Breiðablik), Katrín Eyland Gunnarsdóttir (Dímon), Bryndís Embla Einarsdóttir (Selfossi) og Ísold Assa Guðmundsdóttir (Selfossi) skráðar til keppni. Í fimmtarþraut pilta 15 ára og yngri eru Ármenningarnir Alexander Ingi Arnarsson og Tómas Ari Yngvason skráðir til keppni.

Í 10.000m hlaupi karla eru Jökull Bjarkason (ÍR), Arnar Pétursson (Breiðablik) og Valur Elli Valsson (FH) skráðir til keppni. Kvennamegin eru Hulda Fanný Pálsdóttir (FH), Helga Guðný Elíasdóttir (ÍR) og Íris Anna Skúladóttir (FH) skráðar. Gaman verður að fylgjast með þessum flottu hlaupurum hlaupa 25 hringi á Kópavogsvellinum á morgun.

Silfrið hvetur öll til þess að mæta í Kópavoginn um helgina og hvetja íþróttafólkið til dáða!