Þriðja og síðasta mótið í Nike mótaröð FH fór fram í Kaplakrika í gær. Þar náðist góður árangur í nokkrum greinum.
Kolbeinn Höður Gunnarsson vann 100m hlaup karla á tímanum 10,56s (+1,4). Þetta er persónulegt met hjá honum en fyrir átti hann best 10,58s frá árinu 2017. Tími Kolbeins í gær er fimm hundraðshluta úr sekúndu frá Íslandsmeti Ara Braga Kárasonar frá árinu 2017. Hann fór með þessu upp fyrir Vilmund Vilhjálmsson og Einar Þór Einarsson á afrekaskránni og situr nú þar í fjórða sæti. Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson varð annar í hlaupinu á 11,08s og Sæmundur Ólafsson þriðji á persónulegu meti, 11,25s.
EM-farinn Guðni Valur Guðnason vann kringlukast karla örugglega. Hans lengsta kast mældist 62,03m. Mímir Sigurðsson var annar með 56,14m og Emil Steinar Björnsson þriðji með 19,34m. Selfyssingurinn Örn Davíðsson vann spjótkastið með kasti upp á 66,43m. Í öðru sætinu var Viktor Karl Halldórsson með 58,87m og í því þriðja var tugþrautarkappinn Benjamín Jóhann Johnsen með 57,28m. Daníel Ingi Egilsson vann langstökk karla með stökki upp á 7,18m (+2,6). Stökkið var lengra en hans persónulega met en meðvindur var því miður of mikill til að stökkið teljist löglegt.
FH-ingurinn Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir vann 800m hlaup kvenna á tímanum 2:18,58. Sara Mjöll Smáradóttir úr ÍR varð önnur á tímanum 2:27,31 og Klara Sif Antonsdóttir úr FH þriðja á 2:39,05. Liðsfélagi Elínar, Irma Gunnarsdóttir, vann langstökkið með stökki upp á 5,69 (+3,1). Önnur var Ísold Sævarsdóttir með 5,50m (+3,0) og þriðja var Hekla Magnúsdóttir á nýju persónulegu meti utanhúnns, 5,43m (+1,5). Ísold og Hekla er báðar nýkomnar heim frá Slóvakíu þar sem þær kepptu á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar eins og lesa má um hér.
Hægt er að nálgast heildarúrslit mótsins hér.
Eins og áður segir þá var þetta síðasta mótið í mótaröðinni og því orðið ljóst hver urðu sigurvegarar hennar. Þau eru eftirfarandi:
- Spretthlaup karla: Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH)
- Spretthlaup kvenna: Sara Lind Finnsdóttir (Ármanni)
- Millivegalengdir karla: Valur Elli Valsson (FH)
- Millivegalengdir kvenna: Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir (FH)
- Kastgreinar karla: Mímir Sigurðsson (FH)
- Kastgreinar kvenna: Hulda Sigurjónsdóttir (Ármanni)
- Stökkgreinar karla: Daníel Ingi Egilsson (FH)
- Stökkgreinar kvenna: Irma Gunnarsdóttir (FH)

Mynd: FH.