Demantamótið í Silesia: Tólf heimsmeistarar mæta til keppni

Demantamótaröðin er komin aftur á fullt eftir smá hlé á meðan HM í Oregon var í gangi. Fyrsta mótið eftir hléið er í Póllandi, nánar tiltekið á Slaski leikvanginum í Silesia. Þetta er í fyrsta sinn sem demantamót er haldið í Póllandi og það verður engu til sparað. 49 verðlaunahafar frá HM eru á startlistanum, þar af tólf heimsmeistarar í einstaklingsgreinum.

Möguleiki á heimsmeti

Svíinn Mondo Duplantis er skráður til keppni í stangarstökkinu. Það verður áhugavert að sjá hvernig hann kemur undan heimsmeistaramótinu þar sem hann vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil utanhúss og bætti eigið heimsmet. Öll pressa er farin af honum og hann getur notið þess að stökkva hátt. Heimsmetið gæti því vel fallið á eftir.

Spennandi 200 metra hlaup

Í 200 metra hlaupi kvenna mun nýbakaður heimsmeistari í 200 metra hlaupi, Shericka Jackson, mæta nýbakaða heimsmeistaranum í 400 metra hlaupi, Shaunae Miller-Uibo. Það verður áhugavert að sjá hvort Miller-Uibo eigi roð í Jackson. Það verður að teljast frekar ólíklegt þar sem Jackson hljóp á öðrum besta tíma sögunnar á HM. Ef aðstæður verða góðar getum við jafnvel séð heimsmetið falla. Bronsverðlaunahafinn frá Tókýó, Gabby Thomas, er líka skráð til keppni. Henni mistókst að komast í bandaríska liðið fyrir HM en hún hefur verið að glíma við meiðsli aftan í læri í sumar. Það verður því spennandi að sjá hvort hún sé búin að jafna sig af þeim og getir strítt Jackson og Miller-Uibo eitthvað.

Gleðipinninn dos Santos mætir

Brasilíumaðurinn Alison dos Santos mætir í 400 metra grindahlaupið. Hann hljóp á þriðja besta tíma sögunnar á HM í Oregon og vill örugglega hlaupa enn hraðar í Silesia. Frakkinnn Wilfried Happio, sem varð fjórði á HM, er einnig á startlistanum og mun gera allt sem hann getur til að halda í við dos Santos.

Í 400 metra hlaupi karla eru gull- og silfurverðlaunahafarnir frá Oregon skráðir til keppni, þeir Michael Norman og Kirani James.

100 metra hlaupin stjörnum prýdd

Í 100 metra hlaup karla eru þeir Marvin Bracy-Williams, Trayvon Bromell, Christian Coleman og Yohan Blake allir skráðir til keppni. Coleman vill örugglega bæta upp fyrir sjötta sætið á HM þar sem Bracy-Williams og Bromell unnu silfur og brons.

Kvennamegin mun heimsmeistarinn Shelly-Ann Fraser Pryce mæta tveimur af fjórum úr bandarísku gullsveitinni úr 4x100m frá HM, þeim Melissu Jefferson og Twanishu Terry. Aleia Hobbs, sem fékk einnig gull í 4x100m á HM þar sem hún hljóp í undanúrslitunum, er líka skráð til keppni.

100 metra grindahlaup kvenna er einnig stjörnum prýtt. Ólympíumeistarinn Jasmine Camacho-Quinn, heimsmeistarinn frá 2019, Nia Ali, og fyrrverandi heimsmethafinn, Kendra Harrison, eru allar skráðar til keppni. Nia Ali datt í undanriðlunum á HM og vill örugglega sýna hvað í henni býr í dag.

Spennandi keppni í kastgreinum

Spennandi sleggjukastskeppni er framundan. Heimsmeistarinn Pavel Fajdek mun mæta silfur- og bronsverðlaunahöfunum frá Oregon, þeim Wojciech Nowicki frá Póllandi og Eivind Henriksen frá Noregi. Fajdek og Nowicki vilja örugglega kasta langt á heimavelli.

Kvennamegin eru gull- og bronsverðlaunahafarnir frá Oregon skráðar til keppni, þær Brooke Andersen og Janee Kassanavoid. Það sama á við um kúluvarp kvenna þar sem heimsmeistarinn Chase Ealy frá Bandaríkjunum og bronsverðlaunahafinn Jessica Schilder frá Hollandi eru skráðar. Þær munu fá góða keppni frá nýbökuðum Samveldisleikameistara, Sarah Mitton frá Kanada, sem varð að gera sér fjórða sætið að góðu í Oregon.

Í kúluvarpi karla eru Bandaríkjamennirnir Joe Kovacs og Josh Owutunde skráðir til keppni. Þeir unnu silfur og brons í Oregon en heimsmeistarinn Ryan Crouser verður fjarri góðu gamni.

Önnur sem vert að fylgjast með:

  • Femke Bol, sem vann silfur á HM í 400 metra grindahlupi, mun hlaupa 400 metra en sleppa grindunum í þetta skiptið.
  • Í þrístökki karla eru allir verðlaunahafarnir frá Oregon skráðir til keppni, þeir Pedro Pichardo, Fabrice Zango og Zhu Yaming.
  • Sifan Hassan mun spreyta sig í 3000 metra hlaupi.
  • Heimsmeistarinn í 5000m, Gudaf Tsegay, mun keppa í 1500m.
  • Ólympíumeistarinn Miltiadis Tentoglou keppir í langstökki.
  • Heimsmeistarinn Emmanuel Korir mætir í 800m.
  • Yarislava Mahunchikh keppir í hástökki.

Útsending frá mótinu hefst klukkan 14:00 á íslenskum tíma. Hægt er að nálgast beina útsendingu á Youtube-rás demantamótaraðarinnar hér.