Guðni Valur sýnir gott form fyrir EM

ÍR-ingurinn Guðni Valur Guðnason mun keppa í kringlukasti á Evrópumeistaramótinu í München seinna í mánuðinum ásamt þeim Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur úr ÍR og Hilmari Erni Jónssyni úr FH.

Lokaundirbúningur þremenninganna er nú í fullum gangi og í dag keppti Guðni Valur á sínu síðasta móti áður en hann heldur út til Þýskalands. Guðni Valur kastaði lengst 64,37 metra og virðist því vera í góðu formi í aðdraganda EM. Hann er búinn að kasta lengst 65,27 metra í ár sem setur hann í 14. sætið á Evrópulistanum. Guðni á því ágætis möguleika á að komast í úrslit í fyrsta sinn á stórmóti en búast má við hörkukeppni um úrslitasætin tólf.