MÍ í fjölþrautum: Andri Fannar leiðir með fjórum stigum eftir fyrri dag og Thomas Ari setti aldursflokkamet

Meistaramót Íslands í fjölþrautum fer fram á Kópavogsvelli um helgina. Keppni í fimmtarþrautum pilta og stúlkna 15 ára og yngri lauk í dag. Ármenningurinn Thomas Ari Arnarsson varð Íslandsmeistari í fimmtarþraut pilta 15 ára og yngri og bætti í leiðinni tveggja ára gamalt aldursflokkamet Markúsar Birgissonar. Thomas Ari náði samtals 2621 stigum í greinunum fimm og bætti aldursflokkametið um 60 stig. Alexander Ingi Arnarsson varð annar með 1838 stig.

Selfyssingurinn Ísold Assa Guðmundsdóttir varð Íslandsmeistari í fimmtarþraut stúlkna 15 ára og yngri með 2686 stig. Liðsfélagi hennar, Bryndís Embla Einarsdóttir, var önnur með 2537 stig og Bjarney Hermannsdóttir úr Breiðabliki var þriðja með 2519 stig.

Andri Fannar leiðir með fjórum stigum

Keppni í tugþraut karla er afar spennandi en eftir fyrri daginn leiðir Andri Fannar Gíslason úr KFA með 3285 stig. Aðeins fjórum stigum þar á eftir er ÍR-ingurinn Dagur Fannar Einarsson. Það er einnig mikil barátta um bronsið því aðeins munar 39 stigum á þeim Ægi Erni Kristjánssyni úr Breiðabliki og Reyni Zoëga úr ÍR. Ægir Örn náði í samtals 2770 stig í fyrstu fimm greinunum en Reynir 2731 stig.

Ísold átti betri fyrri dag en í Banská Bystrica

Hörkukeppni er í sjöþraut stúlkna 16-17 ára. FH-ingurinn Ísold Sævarsdóttir, sem náði fjórða sætinu á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Banská Bystrica í síðasta mánuði, leiðir keppnina eftir fyrri dag með 3119 stig. Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðablik er önnur með 3065 og Hekla Magnúsdóttir úr Ármanni þriðja með 2883 stig. Ísold bætti aldursflokkametið í sjöþraut með meyjaáhöldum í flokkum 16-17 ára og 15 ára og yngri í Banská Bystrica en þá náði hún 3081 stigi á fyrri deginum. Hún á því góða möguleika á því að bæta aldursflokkametin aftur ef allt gengur upp á morgun.

Hægt er að sjá öll úrslit dagsins hér.

Keppnin heldur áfram á morgun og byrjar með 110m grindahlaupi í tugþraut karla kl. 12:00. Við hvetjum að sjálfsögðu öll til þess að mæta á Kópavogsvöllinn og styðja við þrautarfólkið á seinni deginum.