Demantamótið í Silesia: Bol setti landsmet og Fraser-Pryce á besta tíma ársins

Demantamótaröðin er komin á fleygiferð aftur eftir stutt hlé í kringum HM í Oregon. Fyrsta mótið eftir hléið var haldið í Silesia í Póllandi í gær þar sem mikið var um dýrðir en 49 verðlaunahafar frá heimsmeistaramótinu voru skráð til keppni. Lítil heimsmeistaramótsþynnka virtist vera í mannskapnum og náðist góður árangur í mörgum greinum.

Bol heldur áfram að brillera

Hollendingurinn Femke Bol vann silfur á HM í 400 metra grindahlaupi. Hún ákvað þó að sleppa grindunum í dag en það virtist ekki hafa nein áhrif á hana. Hún vann 400 metra hlaupið á 49,75s sem er nýtt hollenskt met og í fyrsta sinn sem hún hleypur vegalengdina undir 50 sekúndum. Hún bætti einnig mótsmet Caster Semenyu frá árinu 2018 um 31 hundraðshluta. Heimakonan Natalia Kaczmarek varð önnur á 49,86s og var hún einnig að hlaupa vegalengdina í fyrsta sinn undir 50 sekúndum. Jamaíkukonan Candice McLeod varð þriðja á 50,22s.

Mótsmetið féll einnig í 400 metra hlaupi karla. Heimsmeistarinn Michael Norman vann nokkuð örugglega á tímanum 44,11s. Kirani James varð annar, líkt og á HM, á tímanum 44,55s og Bryce Deadmon þriðji á 44,68s.

Fraser-Pryce hvergi nærri hætt

Þrátt fyrir að hafa klárað næstum 36 hringi í kringum sólina og unnið fimm heimsmeistaratitla í 100 metra hlaupi þá virðist Shelly-Ann Fraser-Pryce ekki vera á þeim buxunum að leggja skóna á hilluna. Hún vann 100 metra hlaupið í gær örugglega og kom í mark á besta tíma ársins í greininni, 10,66s (+0,5). Þetta er einungis sex hundraðshlutum frá hennar persónulega meti. Spennandi verður að sjá hvort hún nái að hlaupa enn hraðar í þeim hlaupum sem eftir eru af tímabilinu. Aleia Hobbs varð önnur í hlaupinu á 10,94s og Marie-Josée Ta Lou þriðja á 11,00s.

Treyvon Bromell vann 100 metra hlaup karla á tímanum 9,95s (-0,7). Marvin Bracy-Williams varð annar á 10,00s. Æfingafélagarnir höfðu því sætaskipti frá því á HM þar sem þeir fengu silfur og brons. Ackeem Blake varð þriðji, aðeins fimm þúsundustu hlutum úr sekúndu á eftir Bracy-Williams.

Jackson hafði betur gegn Miller-Uibo

Shericka Jackson vann 200 metra hlaup kvenna á tímanum 21,84s (+0,2). Heimsmeistarinn í 400 metra hlaupi, Shaunae Miller-Uibo, kom önnur í mark á tímanum 22,35s. Fjórum hundraðshlutum þar á eftir var Bandaríkjakonan Jenna Prandini.

Fajdek setti Demantamótaraðarmet

Fimmfaldi heimsmeistarinn Pawel Fajdek vann sleggjukast karla. Hann kastaði lengst 81,27m sem er Demantamótaraðarmet. Landi Fajdeks, Wojciech Nowicki, var annar með kasti upp á 79,19m. Frakkinn Quentin Bigot var þriðji með 78,83m og Norðmaðurinn Eivind Henriksen fjórði með 78,48m. Það verður spennandi að fylgjast með þessum köppum berjast um verðlaunin á Evrópumeistaramótinu í München síðar í mánuðinum.

Brooke Andersen vann sleggjukast kvenna en hún kastaði lengst 75,56m. Janee Kassanavoid varð önnur með 74,89m.

Dos Santos og Duplantis settu mótsmet

Heimsmeistarinn Alison dos Santos vann 400 metra grindahlaup karla. Sigur hans var ekki eins öruggur og búast hefði mátt við fyrir fram en Bandaríkjamaðurinn Khallifah Rosser var rétt á undan dos Santos yfir níundu grindina. Brasilíumaðurinn var þó sterkari síðustu 70 metrana og kom í mark á tímanum 47,80s sem er nýtt mótsmet. Rosser kom í mark á tímanum 48,30s og Frakkinn Wilfried Happio varð þriðji á 48,74s.

Heimsmethafinn Mondo Duplantis vann stangarstökk karla með miklum yfirburðum eins og við var að búast. Hann stökk hæst 6,10m sem er nýtt mótsmet. Norðmaðurinn Sondre Guttormsen varð annar og Filippseyingurinn Ernest John Obiena þriðji. Þeir stukku báðir yfir 5,73m en Guttormsen gerði það í færri tilraunum.

Jasmine Camacho-Quinn sett mótsmet í 100 metra grindahlaupi kvenna. Hún kom í mark á tímanum 12,34s (+0,8). Kendra Harrison varð önnur á 12,37s og Tia Jones þriðja á 12,49s. Heimakonan Pia Skrzyszowska bætti 50 ára Evrópumet 22 ára og yngri þegar hún kom fjórða í mark á tímanum 12,51s. Metið átti Anneliese Ehrhardt frá Austur-Þýskalandi og var það sett á Ólympíuleikunum í München 1972.

Heildarúrslit mótsins má sjá hér.