MÍ í fjölþrautum: Dagur Fannar Íslandsmeistari í tugþraut

Seinni degi Meistaramóts Íslands í fjölþrautum er nú lokið. ÍR-ingurinn Dagur Fannar Einarsson var krýndur Íslandsmeistari í tugþraut og Ísold Sævarsdóttir varð Íslandsmeistari í sjöþraut stúlkna 16-17 ára.

Dagur Fannar Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Hörð keppni var um Íslandsmeistaratitilinn í tugþraut karla á milli Andra Fannars Gíslasonar úr KFA og Dags Fannars Einarssonar úr ÍR. Andri leiddi þrautina með aðeins fjórum stigum eftir fyrri daginn. Dagur var hins vegar kominn í forystu strax eftir fyrstu grein dagsins. Hann hljóp 110 metra grindahlaupið á 16,43s sem gefur 685 stig en Andri hljóp á 16,55s sem gefur 672 stig. Dagur leiddi því með níu stigum eftir sex greinar.

Eftir sjöundu greinina, kringlukastið, var forskot Dags komið í 21 stig. Hann kastaði kringlunni 35,58m (575 stig) en Andri kastaði 34,99m (563 stig). Í þeirri áttundu, stangarstökkinu, endurheimti Andri hins vegar forystuna. Andri stökk hæst 3,95m sem gefur 603 stig en Dagur stökk 20 sentímetrum lægra og fékk fyrir það 549 stig. Forysta Andra var því 33 stig þegar tvær greinar voru eftir, spjótkast og 1500 metra hlaup.

Andri kastaði spjótinu slétta 50 metra og fékk fyrir það heil 589 stig. Dagur kastaði tæpum fjórum metrum styttra og fékk 530 stig. Forysta Andra var því komin í 92 stig fyrir lokagreinina. Dagur reyndist mun sterkari í 1500 metra hlaupinu og kom í mark á tímanum 4:42,34 en Andri kom í mark á 5:16,92. Fyrir 1500 metra hlaupið fékk Dagur 666 stig sem var sléttum 200 stigum meira en Andri fékk fyrir greinina.

Dagur endaði því með samtals 6286 stig eftir greinarnar tíu og varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn. Andri endaði með samtals 6178 stig og fékk silfur. ÍR-ingurinn Reynir Zoëga fékk brons en hann fékk alls 5099 stig.

Akureyringurinn Birnir Vagn Finnsson varð Íslandsmeistari í tugþraut í flokki pilta 18-19 ára en hann náði samtals 6065 stigum í greinunum tíu.

Ísold Íslandsmeistari

Ísold Sævarsdóttir úr FH varð Íslandsmeistari í sjöþraut stúlkna 16-17 ára. Hún nældi samtals í 5128 stig sem er einungis 14 stigum frá aldursflokkameti hennar sem hún setti á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Slóvakíu í síðasta mánuði. Ísold átti betri fyrri dag í gær en í Slóvakíu en það dró aðeins af henni í dag. Veðuraðstæður hafa örugglega haft eitthvað um það að segja en rigning og rok var á Kópavogsvellinum í dag. Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki varð önnur með 4733 stig og Hekla Magnúsdóttir úr Ármanni þriðja með 4377 stig.

Ísold Sævarsdóttir varð Íslandsmeistari um helgina.
Mynd: FRÍ.

Heildarúrslit frá mótinu má nálgast hér.